Skattfrelsi iðgjalda

Iðgjöld launþega dragast frá skattskyldum tekjum hans og launagreiðandi getur dregið framlag sitt frá skatti.

Skattlagning iðgjalda

Réttindi hjá lífeyrissjóðum, hvort sem um er að ræða réttindi til ævilangs eftirlaunalífeyris eða áfallalífeyris, eru undanþegin fjármagnstekjuskatti af vaxtatekjum og eignarskatti af lífeyrisréttindum.

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og hverjar aðrar vinnutekjur en lífeyrisþegar geta nýtt sér persónuafslátt sinn til lækkunar á sköttum.

Þar sem lífeyrisiðgjöld eru greidd óskattlögð í lífeyrissjóð er komið í veg fyrir tvísköttun lífeyris.

Áhrif tekna á tekjutryggingu

Einstaklingur sem fær eftirlaunalífeyri hjá almannatryggingum getur einnig átt rétt á tekjutryggingu. Fari tekjur eftirlaunaþega, að undanskildum greiðslum frá Tryggingastofnun, húsaleigubótum og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, ekki yfir svokallað tekjumark á hann rétt á óskertri tekjutryggingu.

Skattskyldar tekjur yfir tekjumarkinu, þ. á m. lífeyrir frá lífeyrissjóðum, skerða tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Helmingur fjármagnstekna skerðir einnig tekjutryggingu á sama hátt.

Nánari upplýsingar má fá hjá Tryggingastofnun ríkisins.