15. júní 2022

Ársfundur SL lífeyrissjóðs 2. júní 2022

Ársfundur SL lífeyrissjóðs var haldinn fimmtudaginn 2. júní sl. Flutt var skýrsla stjórnar, fjárfestingarstefna kynnt, farið var yfir ársreikning og tryggingafræðilega úttekt. Loks var farið yfir og breytingar kynntar á samþykktum sjóðsins sem snúa mikið að því að á þessu ári mun sjóðurinn taka upp nýjar líf- og eftirlifendatöflur. Samkvæmt nýjum líftöflum staðfestum af Fjármálaráðuneytinu fer aldur landsmanna hækkandi sem leiðir af lífeyrisgreiðslur í lengri tíma en áður var reiknað með, en það þýðir breytingar á áunnum réttindum eftir aldri.


Sterkt tryggingafræðilega staða gerir það að verkum að allir lífeyrisþegar að barnalífeyrisþegum undanskildum fá hærri lífeyri er nemur 5,6%. Áætlað er að hækkunin komi til framkvæmda með haustinu, eða þegar Fjármála- og efnahagsráðuneytið, að fenginni umsögn fjármálaeftirlitsins hefur samþykkt nýjar samþykktir. Hækkunin gildir frá 1. janúar 2022. Þessu til viðbótar er lagt til að hægt verði að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri í stað fyrst 65 ára o.fl.


Staða sjóðsins er sterk og ávöxtun mjög góð en heildareignir í árslok 2021 voru alls 242,7 milljarðar króna. Á það bæði við samtryggingu og séreign en sjóðurinn býður upp á þrjár leiðir í séreign eftir hvað hentar aldursskeiði sjóðfélaga, þ.e. Söfnunarleið I sem innheldur innlán og traust skuldabréf, Söfnunarleið II sem er inniheldur blandað verðbréfasafn og loks Söfnunarleið III sem innheldur mest hlutabréf og erlend verðbréf.


Á ársfundinum var einnig farið yfir stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar en sjóðurinn hefur ákveðið að auka grænar og umhverfisvænar fjárfestingar verulega á komandi árum.

Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri SL lífeyrissjóðs:

„Árið 2021 er næstbesta ár samtryggingardeildar sjóðsins frá upphafi, en aðeins árið 2005 skilaði hærri ávöxtun. Nafnávöxtun árið 2021 nam 17,1% og raunávöxtun nam 11,7%. Það sem er mest ánægjulegt er að 20 ára raunávöxtun er ein sú besta meðal lífeyrissjóða hér á landi eða 5,4%.

Tryggingafræðileg staða er það sterk að hægt er að úthluta viðbótarréttindum til lífeyrisþega umfram verðbólgu sem er mjög ánægjulegt. Loks gengu séreignarleiðir sjóðsins vel. Framundan eru áskoranir eins og ávallt en málefni tengd innrás Rússa í Úkraínu og aukinni verðbólgu eru ofarlega á baugi sem og auknar grænar fjárfestingar.“