21. nóvember 2024

Þarf sjálfstætt starfandi eða verktaki að greiða í lífeyrissjóð?

Á undanförnum árum hefur aukist mikið að fólk kjósi að vinna á eigin vegum sem verktaki, eða giggari, sem vinnur fyrir marga aðila innan sama tímabils. Þá eru líka margir sem taka að sér verktöku sem aukabúgrein, eins til dæmis við íþróttaþjálfun eða námskeiðahald en hafa megin tekjur sínar af launuðu starfi.

Það er að ýmsu að huga þegar ákveðið er að fara að vinna sjálfstætt. Ýmis réttindi sem launþegar annars eiga rétt á í samræmi við kjarasamninga og lög gilda ekki hjá verktökum, eins og orlofsréttindi, veikindaréttur og tryggingar. Auk þess þurfa verktakar að standa sjálfir skil á öllum opinberum gjöldum, eins og iðgjaldi í lífeyrissjóð og tryggingargjaldi. Giggarar þurfa sjálfir að innheimta endurgjald eða laun fyrir sína vinnu en lífeyrisiðgjöld eru miðuð við þau. Þeir verða að greiða 15,5% (4+11,5%) af reiknuðum launum í lífeyrissjóð.

Hvernig get ég tryggt mér ásættanleg eftirlaun sem giggari?
Öllum launþegum á Íslandi, hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera, í einkageiranum eða sem giggarar, ber skylda til að telja fram allar tekjur sínar og greiða lífeyrisiðgjald af þeim. Þetta á við um allar launatekjur og reiknað endurgjald, óháð upphæð. Þessi krafa nær aðeins til samtryggingar en ekki til viðbótarsparnaðar. Verktakar þurfa að hafa í huga að launin sem þeir reikna sér hefur áhrif á eftirlaunasparnað og réttindi við eftirlaunaaldur. Ef launin eru mjög lág, þá hefur það áhrif á réttindaávinnslu sem getur skipt verulega miklu máli við töku eftirlauna eða örorkulífeyris.

Þú getur reiknað út hvernig dæmið gæti litið út fyrir þig með því að fara í reiknivélina og slá inn núverandi mánaðarleg laun þín og upphæð þegar áunninna lífeyrisréttinda í gegnum tíðina.
Þú getur fundið upplýsingar um áunnin réttindi þín hjá SL sem og öðrum sjóðum með því að skrá þig inn á sjóðfélagavefinn.

Á hverju þarf að standa skil sem verktaki?

Verktakar þurfa að standa skil á opinberum gjöldum sem eru eftirfarandi:

  • Tekjuskatti
  • Tryggingagjaldi sem er 6,35% (2024)
  • Lífeyrissjóðsiðgjaldi sem er 15,5% af reiknuðu endurgjaldi.


Árlega samkeyrsla RSK við lífeyrisgreiðslur
Tekjur sjálfstætt starfandi færast inn í rekstrarbókhald og ef þeir reikna sér ekki laun, þá birtast tekjurnar í heild sem laun sem þarf að greiða tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð af. Á hverju hausti keyrir ríkisskattstjóri (RSK) saman upplýsingar um laun (eða tekjur) og reiknað endurgjald (laun) annars vegar og skrá um skil iðgjalda til lífeyrissjóða hins vegar. Ef ekki hafa verið staðin skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðs, sér skatturinn það og sendir á viðkomandi lífeyrissjóð sem hefur það hlutverk að innheimta vegna þess. Ef enginn lífeyrissjóður kemur upp við samkeyrsluna, þá fer innheimtan til SL lífeyrissjóðs vegna viðkomandi aðila. Þannig er uppfyllt sú lagaskylda að allir landsmenn með laun eða reiknað endurgjald (sjálfstætt starfandi, giggarar) greiði í lífeyrissjóð.

  

Spurt og svarað

Stutta svarið er já. Standa þarf skil á opinberum gjöldum eins og lífeyrissjóðsiðgjaldi af öllum tekjum. Hvað þarf sjálfstætt starfandi að borga mikið í lífeyrissjóð? Verktakar og aðrir sjálfstætt starfandi þurfa að borga lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð eða um 15,5% (4+11,5%) af reiknuðum launum.

Sem verktaki ertu ekki skyldugur til að gera það, en þar sem arður er hluti af rauntekjum þá mælum við með því að það sé gert, til að öðlast réttindi og eftirlaunagreiðslur á við annað launafólk.

Ef þú ert með óreglulegar tekjur, þá ber þér einnig að greiða 15,5%.

Allir sem hafa einhverjar tekjur frá 16 ára aldri verða að greiða iðgjald af þeim í lífeyrissjóð. Ef þú hefur ekki greitt sjálfkrafa í neinn lífeyrissjóð þar sem þú ert að vinna sjálfstætt, þá samkeyrir ríkisskattstjóri (RSK) á hverju hausti saman upplýsingar um tekjur/reiknað endurgjald annars vegar og skrá um iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða hins vegar. Ef ekki hafa verið staðin skil á iðgjöldum til lífeyrissjóðs, sér skatturinn það og sendir á viðkomandi lífeyrissjóð sem hefur það hlutverk að senda greiðsluseðil vegna þess. Ef launþegi er ekki skráður í neinn lífeyrissjóð, þá tekur SL lífeyrissjóður sem er opinn sjóður við þeim sjóðfélaga, en lögbundið hlutverk SL að taka við öllum þeim aðilum sem standa utan lífeyrissjóðs.

Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
25.nóv. 2024

Birting yfirlita sjóðfélaga SL

Yfirlit sjóðfélaga hafa verið birt á Ísland.is og á sjóðfélagavef SL.
Lesa meira
Sjá allar fréttir