SL lífeyrissjóður er langtímafjárfestir

SL lífeyrissjóður hefur það að markmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á með ávöxtun iðgjalda og eigna, áhættustýringu og hagkvæmum rekstri. SL er langtímafjárfestir sem ávaxtar lífeyrissparnað sjóðfélaga sinna í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Ábyrgar fjárfestingar

Sjóðurinn horfir til reglna Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar. Um er að ræða leiðbeinandi reglur sem unnar voru af fulltrúum 20 stofnanafjárfesta frá 12 löndum þar á meðal stærstu lífeyrissjóða vestan hafs og í Evrópu. Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á umhverfisleg og félagsleg málefni auk góðra stjórnarhátta fyrirtækja (skammstafað UFS) getur stuðlað að bættum fjárfestingarárangri verðbréfasafna um leið og hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi geta farið saman.

Þegar ákvörðun um fjárfestingu liggur fyrir er horft sérstaklega til neðangreindra atriða:

 1. Taka tillit til UFS málefna við mat á fjárfestingarkostum.
 2. Vera virkur eigandi hlutabréfa.
 3. Að fyrirtæki geri grein fyrir stefnu sinni í málefnum UFS.
 4. Stuðla að framgangi reglna SÞ hjá fjárvörsluaðilum.
 5. Eiga samstarf við aðra fjárfesta um málefnið.

Umhverfismál og félagsleg ábyrgð

Sjóðurinn hefur til hliðsjónar við fjárfestingar hvernig fyrirtæki horfa til umhverfis og félagslegra þátta við rekstur sinn þ.e:

 1. Að fyrirtækin fari að lögum og reglum um umhverfismál.
 2. Að þau leitist við að draga úr umhverfisáhrifum við rekstur sinn.
 3. Þau geri hluthöfum reglulega grein fyrir stefnu sinni á sviði umhverfismála.
 4. Þau virði félagslega ábyrgð, virði mannréttindi og komi í veg fyrir óréttlæti gagnvart börnum.
 5. Sjóðurinn horfir til þess við fjárfestingar hvort fyrirtækin fylgi góðum stjórnarháttum við rekstur (t.d. reglum OECD um stjórnarhætti) og gefi upplýsingar þar um í ársskýrslum. Einnig er horft til þess hvort innlend fyrirtæki fylgi leiðbeiningum Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Frá 1. janúar 2005 ber útgefendum hlutabréfa í Kauphöll Íslands að fylgja leiðbeiningunum eða upplýsa um frávik frá leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.
 6. Sjóðurinn leitast við að gegna eigendaskyldum sínum með virkum hætti. Hann kemur ábendingum um rekstur og stefnu auk bættra stjórnarhátta fyrirtækja sem sjóðurinn er hluthafi í, á framfæri á hluthafafundum og/eða með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja. Sjóðurinn leitast við að taka afstöðu til mála á hluthafafundum með atkvæðum sínum og á hlutabréfamarkaði með aðgerðum sínum.

Tilnefningar í stjórnir félaga og launakjör stjórnarmanna

Hluthafastefna sjóðsins ákvarðar hvernig sjóðurinn beitir sér sem hluthafi í þeim hlutafélögum sem hann á eignarhlut í. Ef sjóðurinn á verulegan eignarhlut, sem telst vera 0,5% af heildareignum lífeyrissjóðsins, 5% eða hærri eignarhlutur í hverju félagi eða sjóðurinn er meðal fimm stærstu hluthafa félagsins, þá er það eftir atvikum valnefnd sjóðsins sem tilnefnir stjórnarmenn í hvert félag. Í þeim tilfellum þar sem eignarhlutur sjóðsins í félögum er óverulegur eða undir áðurnefndum viðmiðum vill stjórn sjóðsins afmarka hlutdeild sína í stjórnum með þátttöku í valnefndum sem eru myndaðar sameiginlega með hluthöfum eða settar upp af félögunum sjálfum. Lögð er áhersla á að valnefndirnar séu óháðar félaginu sjálfu.

Hvorki stjórnarmenn né starfsmenn sjóðsins sitja í stjórnum fyrirtækja í umboði sjóðsins. Stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra er jafnframt óheimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins. Við sérstakar aðstæður svo hægt sé að fylgja eftir hagsmunum sjóðsins með fullnægjandi hætti, er starfsmönnum jafnframt heimilt með ákvörðun stjórnar að sitja í stjórnum eða ráðum áhættufjármagnsfyrirtækja, eða sjóða sem lífeyrissjóðurinn á hlut í.

Ef sjóðurinn á þess kost á grundvelli eignarhalds skal hann leitast við að tilnefna vel hæfa fulltrúa í stjórnir félaga, annað hvort einn og sér eða í samstarfi við aðra.

Framkvæmdastjóri, forstöðumaður eignastýringar, stjórnarformaður og varaformaður stjórnar SL mynda valnefnd innan sjóðsins sem tilnefnir stjórnarmenn í hvert félag. Nefndin nýtur liðsinnis annarra stjórnamanna, starfsmanna sjóðsins og/eða utanaðkomandi ráðgjafa við leit og val á stjórnarmönnum. Einnig kemur til greina að auglýsa eftir stjórnarmönnum. Valnefnd sjóðsins kemur saman a.m.k. árlega og oftar ef þörf krefur, í aðdraganda aðalfunda félaga eða þegar kosning stjórnarmanna stendur fyrir dyrum í félögum sem sjóðurinn á verulegan hlut í.

Val á stjórnarmönnum, sem sjóðurinn tilnefnir eða styður til stjórnarsetu, byggir á faglegu ferli þar sem bakgrunnur, fagleg þekking, reynsla, færni og hæfi er kannað. Sérstaklega þarf að huga að samsetningu stjórna með hliðsjón af fjölbreyttri þekkingu og reynslu, svo og kynjahlutfalli. Huga þarf að því að ekki séu árekstrar milli hagsmuna félagsins og annarra hagsmuna sem stjórnarmenn gæta. Stjórnarmenn skulu leggja megináherslu á að viðkomandi félag skili viðunandi arðsemi svo að fjárfesting sjóðsins bæti hag sjóðfélaga til lengri eða skemmri tíma.

Við mat á því hverjar séu eðlilegar launagreiðslur fyrir stjórnarsetu í félagi skal litið til umfangs og ábyrgðar starfsins, sem og þess tíma sem stjórnarmenn þurfa að verja til að geta rækt skyldur sínar við félagið. Telji valnefnd að tillögur fyrir aðalfund um stjórnarlaun séu mjög frábrugðnar því sem hæfilegt er, með hliðsjón af framangreindum matsþáttum, skal valnefnd koma þeim sjónarmiðum á framfæri. Skal það gert annað hvort við viðkomandi stjórn fyrir aðalfund eða með formlegum hætti, svo sem með bókun eða breytingartillögu á aðalfundi.

Fulltrúar sjóðsins í stjórnum félaga skulu standa vörð um hagsmuni félagsins, sbr. hlutafélagalög, með því að fylgja bestu viðmiðum um stjórnarhætti fyrirtækja; árangursmælingum, eftirliti og virkri beitingu lagalegra úrræða. Stjórnir hafa eftirlit með því að rekstur félaga fylgi almennum og góðum viðskiptavenjum, gæta þess að samþykktir séu virtar og að bestu stöðlum um stjórnarhætti sé fylgt.

Framkvæmdastjóri SL fer með umboð, þ. á m. atkvæðisrétt, á aðalfundum fyrir hönd sjóðsins. Ef framkvæmdastjóri getur ekki mætt á viðkomandi aðalfund fer forstöðumaður eignastýringar með umboð sjóðsins.

Ákvörðun um launakjör framkvæmdastjóra

Stjórn hvers félags ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningar- og starfssamning. Stjórn félags ber ábyrgð á að starfssamningur framkvæmdastjóra sé gerður á faglegum grunni og að fyrir honum liggi hlutlæg rök. Við ákvörðun launa framkvæmdastjóra skulu stjórnarmenn sem tilnefndir eru með tilstuðlan sjóðsins líta til innri þátta félags, launadreifingar innan þess og launa sem ætla má að framkvæmdastjóra bjóðist á þeim markaði sem félagið starfar á

Kaupaukar og hvatakerfi

Sjóðurinn leggur áherslu á að ávallt liggi fyrir greinargóðar upplýsingar og rök fyrir starfskjörum starfsmanna þeirra félaga sem sjóðurinn á verulegan hlut í, m.a. árangurstengdum greiðslum, kaupaukum og starfslokasamningum séu þeir gerðir. Nauðsynlegt er að hluthafar séu upplýstir um forsendur og rök fyrir kaupaukum og breytilegum launaliðum.

Samkeppnisleg sjónarmið

Nauðsynlegt er fyrir sjóðinn að hafa samkeppnissjónarmið til hliðsjónar við mótun fjárfestingar- og hluthafastefnu. Sjóðurinn vill árétta mikilvægi þess að fyrirtæki á samkeppnismarkaði séu sjálfstæð og stundi virka samkeppni sín á milli. Sjóðurinn vill leggja að stjórnum félaga þar sem hann á hagsmuna að gæta að fylgja þessum sjónarmiðum. Sjóðnum er ljóst að eignarhald sama aðila á umtalsverðum hlutum í fleiri fyrirtækjum eða samstæðum fyrirtækja á sama markaði kallar á sérstaka aðgæslu af hálfu sjóðsins.

Samþykkt af stjórn SL lífeyrissjóðs 17. mars 2015