Samþykktir

Gilda frá 1. sept. 2024
Sjá kaflaskiptingar
1. gr.

Heiti, heimili og hlutverk

1.1.
Lífeyrissjóðurinn heitir Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í lögum um hann nr. 155/1998, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og samþykktum sjóðsins. Starfsheiti lífeyrissjóðsins er SL lífeyrissjóður.  
1.2.
Lífeyrissjóðurinn starfar í þremur deildum: samtryggingardeild, tilgreindri séreignardeild og séreignardeild.  
1.3.
Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laga og samþykktum sjóðsins. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar og áskilur sér heimild til að verja þau réttindi umfram önnur. Sjóðurinn skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að sinna hlutverki sínu og er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.
1.4.
Þar sem samþykktir þessar tilgreina fjárhæðir í krónum talið, miðast verðgildi þeirra við gildi vísitölu neysluverðs til verðtryggingar 605,8 (janúar 2024) og skulu fjárhæðir endurreiknaðar mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölunni, nema annað sé tekið fram í viðkomandi grein.
1.5.
Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík. 
2. gr.

Sjóðfélagar

2.1.
Skylda til greiðslu iðgjalds nær til allra launþega og þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi frá 16 ára aldri til 70 ára aldurs og hafa ekki fullnægt tryggingarskyldu sinni með aðild að öðrum lífeyrissjóði og greiðslu iðgjalds til hans í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  
2.2.
Óheimilt er að neita manni um aðild að sjóðnum á grundvelli heilsufars hans, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns. 
2.3.
Sjóðfélagar teljast allir þeir sem eiga lífeyrisréttindi hjá sjóðnum og þeir sem njóta ellieða örorkulífeyris. 
2.4.
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við stjórnir annarra lífeyrissjóða um samruna þeirra við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Stjórnin skal gæta þess að réttur sjóðfélaga sjóðsins verði ekki skertur við samrunann og jafnframt að hann sé ekki bættur á kostnað sjóðfélaga hinna sjóðanna. Stjórn sjóðsins er jafnframt heimilt að selja öðrum lífeyrissjóðum tryggingarvernd og hafa samstarf við aðra lífeyrissjóði um einstaka þætti tryggingarverndar. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að bjóða sjóðfélögum og öðrum aðilum samninga um viðbótartryggingarvernd og séreignarsparnað í samræmi við lög nr. 129/1997.
2.5.
Heimilt er að flytja iðgjöld og þar með réttindi sem þeim fylgir milli lífeyrissjóða þegar að töku lífeyris kemur. Aðild að sjóðnum fellur niður er sjóðfélagi fær útborguð réttindi sín í einu lagi eða þau flytjast samkvæmt samskiptareglum lífeyrissjóða í annan lífeyrissjóð.  
3. gr.

Stjórn

3.1.
Ráðherra skipar sjö menn og tvo varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu fjórir stjórnarmenn og einn varamaður skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og þrír stjórnarmenn og einn varamaður skipaðir án tilnefningar. Einn þeirra stjórnarmanna sem skipaðir eru án tilnefningar skal vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti 2 skiptir stjórnin með sér verkum. Ráðherra ákvarðar þóknun stjórnarmanna. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði. Hvort kyn skal eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins. Að lágmarki skal hlutfall hvors kyns um sig vera minnst 40%. Á það bæði við um stjórn og varastjórn.  
3.2.
Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiriháttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin setur honum samþykktir í samræmi við ákvæði laga nr. 155/1998 og ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  
3.3.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri sjóðsins skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu og mega ekki á síðustu fimm árum hafa, í tengslum við atvinnurekstur, fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum evrópska efnahagssvæðisins eða í Færeyjum, eru þó undanþegnir þessu búsetuskilyrði.  
3.4.
Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og setur honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn til sjóðsins. Framkvæmdastjóri - sjóðsins er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í sjóðnum. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Skal menntun og starfsferill framkvæmdastjóra sjóðsins vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gengt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.  
3.5.
Sjóðurinn skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra,
endurskoðanda og tryggingastærðfræðingi.
3.6.
Stjórnin veitir og afturkallar prókúruumboð til handa framkvæmdastjóra og öðrum
starfsmönnum.
3.7.
Framkvæmdastjóri skal veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um hag
og starfsemi sjóðsins sem þeir óska.
3.8.
Um vanhæfi til meðferðar einstaks máls fer eftir meginreglum stjórnsýslulaga. Stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og eftir atvikum öðrum starfsmönnum er skylt að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfi skv. framantöldu. Skal þá varamaður taka sæti aðalmanns meðan fjallað er um mál sem svo er vaxið.
3.9.
Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur sjóðsins, eru bundnir af þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 
3.10.
Stjórn sjóðsins skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila, móta fjárfestingarstefnu sjóðsins, setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra og reglur um verðbréfaviðskipti stjórnar sem og starfsmanna sjóðsins. Reglur um verðbréfaviðskipti skulu samþykktar af Fjármálaeftirlitinu. Einnig ber stjórn að móta innra eftirlit sjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla sem og að móta eftirlitskerfi sem gerir sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins.
3.11.
Sjóðurinn skal hafa í þjónustu sinni starfsmann sem hæfur er til að sinna eignastýringu verðbréfasafna sjóðsins á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu. Skal hann hafa verðbréfaréttindi skv. 40. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021, sbr. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997.
3.12.
Sjóðurinn skal tilnefna starfsmann til að bera ábyrgð á greiningu, mælingu og skýrslugjöf um áhættu og skal tilnefningin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Láti sá starfsmaður af störfum skal 3 það jafnframt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Ábyrgðaraðila áhættustýringar verður hvorki sagt upp störfum né hann færður til í starfi nema að fengnu samþykki stjórnar. Áhættustýring sjóðsins skal vera óháð öðrum starfseiningum hans. Sjóðurinn skal tryggja að áhættustýring hafi nægilegt fjármagn og heimildir, m.a. til þess að afla gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru í starfsemi áhættustýringar. Tryggt skal að ábyrgðaraðili áhættustýringar hafi milliliðalausan aðgang að stjórn sjóðsins. Að lágmarki skal tryggja aðskilnað starfa og að til staðar sé virkt ítarlegt innra eftirlit til að lágmarka líkur á hagsmunaárekstrum.
3.13.
Sjóðnum er óheimilt að veita lán til stjórnarmanna, varamanna þeirra, starfsmanna sjóðsins, endurskoðenda, eftirlitsaðila, þeirra sem framkvæma tryggingafræðilega athugun á hag sjóðsins eða maka þessara aðila, nema þeir séu félagar í sjóðnum og þá eftir þeim reglum sem gilda um lán til sjóðfélaga almennt.
4. gr.

Ársfundur

4.1.
Fyrir lok júní hvert ár skal stjórn sjóðsins boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum með umræðu- og tillögurétti. Tillögum skal vísað til stjórnar til meðhöndlunar.
4.2.
Ársfund skal boða með tryggilegum hætti, að lágmarki 7 virkum dögum fyrir ársfund. Skal fundurinn auglýstur á heimasíðu sjóðsins og með hætti sem stjórn metur hverju sinni að tryggi sem besta kynningu fundarins.
4.3.
Á ársfundi skal gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum úttektum, fjárfestingarstefnu og tillögum stjórnar til breytinga á samþykktum sjóðsins. Þrátt fyrir ákvæði 30.gr. l.129/1997 er stjórn sjóðsins heimilt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins sem beinlínis leiða af lögum eða reglugerðum. 
5. gr.

Reikningar og endurskoðun

5.1.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og skal ársreikningurinn gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.
6. gr.

Tryggingafræðileg athugun

6.1.
Stjórn sjóðsins skal árlega láta reikna út fjárhag sjóðsins skv. 24. gr. sbr. 39. gr. l. 129/1997 og skal niðurstaðan vera hluti af reikningsskilum sjóðsins um hver áramót.
6.2.
Athugun skal gerð af tryggingastærðfræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hafa viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs. Fyrir 15. maí ár hvert skal senda Fjármálaeftirlitinu hina tryggingafræðilegu athugun.  
6.3.
Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er stjórn sjóðsins skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
6.4.
Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós, að fjárhagur sjóðsins sé ótryggur og ætla megi að eignir muni ekki duga fyrir skuldbindingum getur stjórn sjóðsins, að höfðu samráði við tryggingastærðfræðing ákveðið um lækkun lífeyrisréttinda, enda finnist ekki aðrar leiðir til að bæta fjárhag sjóðsins. Ekki er þó hægt að lækka réttindi meira en að þeim lágmarksréttindum, sem sjóðnum er skylt að veita, sbr. ákvæði laga nr. 129/1997.
7. gr.

Fjárfestingarheimildir og fjárfestingarstefna

7.1.

Stjórn sjóðsins skal móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans og ávaxta fé sjóðsins og einstakra deilda hans í samræmi við eftirtaldar reglur og innan þeirra marka sem tilgreind eru í þessum kafla:

  1. Sjóðurinn skal hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
  2. Sjóðurinn skal horfa til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar.
  3. Allar fjárfestingar skulu byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga.
  4. Sjóðurinn skal gæta þess að eignir hans séu nægilega fjölbreyttar til að komið sé í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu, m.a. með því að gæta að fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka.
  5. Sjóðurinn skal setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.
7.2.
Fjárfestingarstefna sjóðsins skal byggð á flokkun eigna samkvæmt ákvæðum greinar 7.5. Hver tegund innlána og fjármálagerninga skal jafnframt sundurliðuð eftir því sem við á með tilliti til gjaldmiðlaáhættu og stærðar einstakra innlánsaðila eða útgefenda. Fjárfestingarstefnu sjóðsins skal fylgja greinargerð um það hvernig sjóðurinn fylgir reglum greinar 7.1.  
7.3.
Sjóðurinn skal senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert.  
7.4.
 Sjóðnum er heimilt að ávaxta fé, sem ætlað er til að veita lágmarkstryggingavernd, í innlánum viðskiptabanka og sparisjóða, fjármálagerningum og fasteignum, að uppfylltum þeim skilyrðum er koma fram í ákvæðum 7. gr. 
7.5.

Sjóðurinn skal flokka eignir sjóðsins í eignaflokka A–F, sem hér segir:

  1. Eignaflokkur A.
    1. Fjármálagerningar sem aðildarríki Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) eða aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjar gefa út eða ábyrgjast
    2. Skuldabréf tryggð með veði í fasteign, enda fari veðhlutfall ekki umfram 75% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis eða 50% af markaðsvirði annarra fasteigna við lánveitingu. 
  2. Eignaflokkur B.
    1. Fjármálagerningar sem sveitarfélög eða Lánasjóður sveitarfélaga ohf. gefa út eða ábyrgjast.
    2. Innlán viðskiptabanka og sparisjóða.
    3. Skuldabréf samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf og samsvarandi skuldabréf útgefin í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. 
  3. Eignaflokkur C.
    1. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl útgefin af lánastofnunum og vátryggingafélögum, að undanskildum kröfum sem um hefur verið samið að víki fyrir öllum öðrum kröfum.  
    2. Hlutir eða hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, eða tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).  
  4. Eignaflokkur D.
    1. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl félaga.
    2. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
  5. Eignaflokkur E.
    1. Hlutabréf félaga.
    2. Hlutir eða hlutdeildarskírteini annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    3. Fasteignir í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eða aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum.
  6. Eignaflokkur F.
    1. Afleiður sem draga úr áhættu sjóðsins eða fela aðeins í sér kauprétt eða áskriftarréttindi, enda sé viðmið þeirra fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, neysluverðsvísitölur, verðbréfavísitölur, vextir eða gengi erlendra gjaldmiðla.
    2. Aðrir fjármálagerningar, þó ekki afleiður.
7.6.

Sjóðurinn skal tryggja að vægi eignaflokka skv. grein 7.5. sé innan eftirtalinna marka:

  1. Eignir skv. 3.–6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 80% heildareigna.
  2. Eignir skv. 4.–6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 60% heildareigna.
  3. Eignir skv. 6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 10% heildareigna.

Fjármálagerningar skv. 2.–6. tölul. skulu skráðir á skipulegum markaði innan aðildarríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, eða markaði utan ríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, enda hafi Fjármálaeftirlitið viðurkennt hann. Þrátt fyrir 1. málsl. er sjóðnum heimilt að fjárfesta í hlutum og hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu ef kveðið er á um heimild til innlausnar þeirra að kröfu sjóðsins á hverjum tíma. Þrátt fyrir framangreint er sjóðnum heimilt að binda allt að 20% heildareigna í fjármálagerningum sem ekki eru skráðir á skipulegum markaði. Að því viðbættu er heimilt að binda allt að 5% heildareigna í fjármálagerningum sem eru skráðir á markaðstorg fjármálagerninga (MTF) í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, sem starfar reglulega, er opið almenningi og viðurkennt á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan. Fjármálagerningar sem ekki eru skráðir á skipulegum markaði skulu gefnir út af aðilum innan aðildarríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Séu afleiður skv. 6. tölul 7.5. ekki skráðar á skipulegum markaði skal mótaðili sjóðsins lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Þá skal vera unnt að reikna verðmæti slíkra samninga daglega með áreiðanlegum hætti. 

7.7.

Sjóðnum er heimilt að binda allt að 10% heildareigna í fjármálagerningum sama útgefanda sem falla undir 2.–6. tl. greinar 7.5. Þar af er sjóðnum óheimilt að binda meira en 5% af heildareignum í fjármálagerningum sama útgefanda sem falla undir 6. tl. greinar 7.5. Við mat á hlutfalli afleiðna skv. 1. og 2. málsl. skal hrein neikvæð staða metin á sama hátt og hrein jákvæð staða. Sjóðnum er þó heimilt að binda allt að 10% heildareigna í sértryggðum skuldabréfum sama útgefanda skv. c-lið 2. tl. greinar 7.5. Samanlögð eign sjóðsins í fjármálagerningum skv. ofangreindu og innlánum sama viðskiptabanka eða sparisjóðs skal vera innan við 25% heildareigna. Sjóðurinn skal tryggja að mótaðilaáhætta, sem leiðir af afleiðu, falli undir takmarkanir 1. og 3. mgr. hér að ofan. Aðilar sem teljast til sömu samstæðu eða tilheyra hópi tengdra viðskiptavina, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein. Sjóðnum er ekki heimilt að eiga meira en 25% af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum eða einstakri deild þeirra. Sjóðnum er ekki heimilt að eiga meira en 20% af hlutafé í hverju félagi eða hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra. Þrátt fyrir ofnagreint er sjóðnum heimilt að eiga stærri hluta en 20% í félagi sem eingöngu sinnir þjónustuverkefnum fyrir sjóðinn.  

7.8.
Sjóðurinn skal takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að að lágmarki 35% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans. Þrátt fyrir ofangreint. skal sjóðurinn fram til ársins 2024 tryggja að að lágmarki 50% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans. Hinn 1. janúar 2024 lækkar það lágmark í 48,5% og um 1,5 prósentustig 1. janúar ár hvert til 1. janúar 2027. Eftir það lækkar lágmarkið um eitt prósentustig 1. janúar ár hvert þar til það nær 35% 1. janúar 2036. Sjóðurinn skal, þrátt fyrir ofangreint eiga eignir í sama gjaldmiðli og skuldbindingar sem jafngilda væntum lífeyrisgreiðslum sameignarhluta hans til næstu þriggja ára. Sjóðnum er heimilt að fullnægja skilyrði samkvæmt ofangreindu með afleiðum sem takmarka gjaldmiðlaáhættu með sambærilegum hætti. 
7.9.
Sjóðurinn skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá sjóðnum skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar 6 sem gera honum kleift að greina, meta, vakta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins. Innri ferlar skulu endurskoðaðir reglulega. Áhættustýring skal taka virkan þátt í mótun áhættustefnu sjóðsins og hafa aðkomu að viðameiri ákvörðunum um áhættustýringu. Áhættustýringu skal gert viðvart um öll meiri háttar eða óvenjuleg viðskipti sjóðsins áður en þau fara fram. Sjóðurinn skal, a.m.k. árlega og í hvert sinn þegar mikil breyting verður á áhættusniði hans, framkvæma eigið áhættumat. Í áhættumatinu skal horft til helstu áhættuþátta sem greindir hafa verið í starfsemi sjóðsins, möguleg áhrif þeirra metin og greint frá þeim aðgerðum sem lífeyrissjóðurinn hyggst grípa til ef áhætta raungerist. Skýrsla um framangreint áhættumat skal kynnt stjórn og henni skal skilað til Fjármálaeftirlitsins.  
7.10.
Fari fjárfesting sjóðsins fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitinu án tafar tilkynnt um það og skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta. Lögmæltu hámarki skal náð í síðasta lagi innan þriggja mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað lengri frest enda sé það augljóslega í þágu sjóðfélaga. Ef breytingar á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkanir á erlendum eignamörkuðum leiða til þess að gjaldmiðlaáhætta lífeyrissjóða fer fram úr leyfilegum mörkum, sbr. ákvæði 7.8 á ofangreint ekki við nema að því leyti að tilkynningarskylda til Fjármálaeftirlitsins helst óbreytt. Meðan svo stendur á er sjóðnum óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína skv. ákvæði 7.8 með kaupum á eignum í öðrum gjaldmiðli en skuldbindingar hans eru í þar til leyfilegum mörkum um gjaldmiðlaáhættu er náð.
7.11.
Sjóðurinn má ekki fjárfesta í lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins. Þrátt fyrir framangreint er sjóðnum heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar eigi síðar en innan 18 mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests. Sjóðnum er óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Sjóðnum er þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á verðbréfum eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi. Sjóðnum er óheimilt að veita lán til stjórnarmanna, varamanna þeirra, starfsmanna sjóðsins, endurskoðenda, eftirlitsaðila, þeirra er framkvæma tryggingafræðilega athugun á hag sjóðsins eða maka þessara aðila, nema þeir séu félagar í sjóðnum og þá eftir þeim reglum sem gilda um lán til sjóðfélaga almennt.  
7.12.
Grein 7 á við um fjárfestingar allra deilda þ.e. samtryggingardeildar, tilgreindrar séreignardeildar og séreignardeildar sjóðsins. Gildir ákvæðið þannig jafnframt um fé sem er ávaxtað og ætlað til að veita viðbótartryggingarvernd. 
8. gr.

Iðgjöld

8.1
Iðgjald til sjóðsins skal nema að lágmarki 15,5% af iðgjaldastofni sbr. 8.2. Sé um launþega að ræða skiptist iðgjaldið þannig, að launþegi greiðir 4% en launagreiðandi það sem umfram er. 
8.2.

Iðgjald skv 8.1. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða vegna vinnu hans við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- og 7 stjórnunaraðildar skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt sbr. 59. gr. þeirra laga.

8.3.
Sjóðnum er heimilt að taka við viðbótariðgjaldi sem greitt er umfram lágmarksiðgjald samkvæmt 8.1. og 8.2. Getur því viðbótariðgjaldi verið varið til öflunar lífeyrisréttinda í samtryggingu eða í séreign. Sé því varið til samtryggingar skal viðkomandi sjóðfélagi greiða fullt lágmarksiðgjald til samtryggingardeildar sjóðsins. Greiðsla lágmarkstryggingariðgjalds og viðbótariðgjalds skal fara fram samtímis sé viðbótariðgjaldinu varið til samtryggingar. Slíkt viðbótariðgjald getur verið án sérstaks mótframlags. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa iðgjaldi umfram 12% af iðgjaldastofni í tilgreinda séreignardeild, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjara- eða ráðningarsamningi sbr. 18 gr.
8.4.
Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldshluta. Gjalddagi iðgjalds hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar og eindagi síðasta dag sama mánaðar. Hafi ekki verið greitt á eindaga skal innheimta hæstu vanskilavexti sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum að taka frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðanda og sjálfstæðum atvinnurekanda ber að tilkynna sjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra látið af störfum.  
8.5.
Stjórn sjóðsins er heimilt að innheimta þóknun allt að 4% af iðgjaldi vegna innheimtu iðgjalda sem sjóðnum ber að innheimta í samræmi við 6. gr. laga nr. 129/1997. Heimilt er að draga þóknunina frá iðgjaldi áður en það er fært í réttindabókhald. Feli sjóðurinn þriðja aðila, sem til þess er bær, að annast innheimtu iðgjaldanna, enda hafi ekki verið orðið við áskorunum sjóðsins um greiðslu þeirra, skal kostnaður sem af því leiðir greiddur af þeim sem innheimtan beinist að.  
8.6.
Sjóðfélagar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.  
8.7.
Iðgjöld sjóðfélaga sem launagreiðandi hefur sannanlega haldið eftir af launum hans, en ekki staðið skil á til sjóðsins, svo og mótframlag launagreiðandans, skal þrátt fyrir vanskilin meta að fullu til réttinda fyrir viðkomandi sjóðfélaga við úrskurð lífeyris, enda hafi sjóðnum verið kunnugt um þessi vanskil. Þó ber sjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og Ábyrgðarsjóður launa ber ekki ábyrgð á skv.10. gr. laga nr. 88/2003.). 
8.8.
Á hálfs árs fresti skal senda sjóðfélögum yfirlit yfir greidd iðgjöld vegna þeirra. Yfirlitinu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir, ef vanhöld koma í ljós á iðgjaldaskilum. Sjóðurinn skal samtímis með opinberri auglýsingu skora á alla þá sem telja sig hafa greitt iðgjöld til sjóðsins á undangengnu tímabili og ekki fengið yfirlit skv. framanskráðu, að gera sjóðnum viðvart án tafar um ætluð vanskil. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Samhliða yfirliti þessu skal eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunnin og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri. Heimilt er að skila yfirlitum til sjóðfélaga með rafrænum hætti óski þeir eftir því.
9. gr.

Grundvöllur lífeyrisréttinda

9.1.
Réttindi sjóðfélaga til lífeyris eru reiknuð í krónum og ráðast réttindi af því iðgjaldi sem greitt er í sjóðinn hverju sinni. Viðmiðunaraldur fyrir útreikning lágmarkstryggingaverndar, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er 25 til 64 ára, að báðum aldursárum meðtöldum. Í 10. – 13. grein er tilgreint hvernig lífeyrisréttindi sjóðfélaga eru reiknuð. Byggir útreikningurinn m.a. á réttindatöflum í viðauka sem teljast hluti samþykktanna. Reikna skal nýjar réttindatöflur árlega. Gefi nýju réttindatöflurnar niðurstöðu sem breytir framtíðarskuldbindingum sjóðsins um meira en 1% þá 8 skulu nýju töflurnar taka gildi frá og með næstu áramótum þaðan í frá. Að öðrum kosti gilda eldri réttindatöflur áfram.
9.2.
Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af samkvæmt töflu I í viðauka A, sbr. þó gr. 9.3. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af. Lífeyrisréttindin eru skilgreind í greinum 10 til og með 13 sbr. þó ákvæði þeirra greina sem fjalla um áframhaldandi jafna ávinnslu lífeyrisréttinda.
9.3.
Sjóðfélaga sem á réttindi í sjóðnum miðað við árslok 2005 er heimilt að greiða til hans iðgjöld allt að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu í jafn marga mánuði og viðkomandi hafði greitt iðgjöld til sjóðsins fyrir 42 ára aldur í lok árs 2005. Hafi hann greitt iðgjöld í full 5 ár á umræddu tímabili á hann rétt á að greiða allt að viðmiðunariðgjaldi í jafnri réttindaávinnslu til 70 ára aldurs. Þessi jafna ávinnsla miðast við meðaltal réttindaávinnslu aldursáranna 25 til og með 64 ára skv. töflu I í viðauka, þar sem meðaltalið er birt sérstaklega í formi réttinda fyrir hvert 10.000 króna iðgjald.  
9.4.
Hámarksiðgjald til jafnrar ávinnslu á hverju almanaksári, viðmiðunariðgjald, skal ákveðið fyrir hvern sjóðfélaga á aldrinum 25 ára til og með 69 ára, jafnhátt því iðgjaldi sem hann greiddi til sjóðsins á árinu 2003 eða síðasta árið sem iðgjald barst sjóðnum hans vegna, hafi það verið fyrr. Viðmiðunariðgjaldið skal þó ekki taka mið af iðgjaldagreiðslum umfram 10% af iðgjaldastofni. Hafi iðgjaldagreiðslur það ár ekki endurspeglað venjubundnar greiðslur, s.s. vegna starfshléa eða að greiðslum hafi verið hætt á árinu, skal eftir umsókn sjóðfélaga miða útreikning á viðmiðunariðgjaldi við iðgjaldagreiðslur næsta ár á undan sem stjórn sjóðsins telur gefa sanngjarna mynd af reglulegum iðgjaldagreiðslum sjóðfélagans. Viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu tekur breytingum í hlutfalli við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá viðmiðunarári til greiðsluárs hverju sinni. 
9.5.
Öll iðgjöld sem berast sjóðnum á ári hverju vegna sjóðfélaga sem er 25 ára eða eldri í árslok 2005 og hefur skilgreint viðmiðunariðgjald skv. framanskráðu, skulu færast í jafnri réttindaávinnslu allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð eða útreiknuðu iðgjaldsgreiðslutímabili er lokið. Sjóðurinn skal sérstaklega gæta þess að réttindaávinnsla þeirra sem ekki eiga rétt á jafnri réttindaávinnslu til 70 ára aldurs skv. 9.3. og 9.4. sé samkvæmt þeim ávinnslureglum er gefa meiri rétt á hlutaðeigandi tímabili. Iðgjald sem berst umfram framangreint viðmiðunariðgjald myndar réttindi samkvæmt aldursháðri réttindatöflu sjóðsins. Þegar öll iðgjöld ársins hafa borist vegna sjóðfélaga sem á skilgreint viðmiðunariðgjald skal færa þau til réttinda þannig að sá hluti iðgjalda ársins sem fer í jafna réttindaávinnslu skiptist á mánuði ársins í hlutfalli við samtals iðgjöld. Mismunurinn fer í aldursháða réttindaávinnslu.
9.6.
Nú greiðast ekki iðgjöld alla mánuði tiltekins almanaksárs og reiknast þá viðmiðunariðgjald þess árs í réttu hlutfalli við fjölda greiðslumánaða.  
9.7.
Við framreikning réttinda skv. ákvæðum 11.-13. gr. skal reikna með jafnri ávinnslu í samræmi við hlutdeild viðmiðunariðgjalds sjóðfélagans af þeim iðgjöldum sem lögð eru til grundvallar framreikningi.
9.8.
Sjóðurinn skal upplýsa sjóðfélaga um útreikning á viðmiðunariðgjaldi til jafnrar réttindaávinnslu skv. framanskráðu innan fimm mánaða frá því að hann greiðir fyrst til sjóðsins eftir 1. janúar 2006. Telji sjóðfélagi viðmiðunarárið ekki gefa sanngjarna mynd af venjubundnum iðgjaldsgreiðslum hans getur hann óskað eftir því við sjóðstjórn að annað ár verði lagt til grundvallar útreikningi viðmiðunariðgjalds. Ósk um endurskoðun viðmiðunariðgjalds skal berast sjóðnum í síðasta lagi 9 mánuðum eftir að sjóðfélaginn fékk tilkynningu um útreikning viðmiðunariðgjalds.
9.9.
Ekki skal reikna viðmiðunariðgjald fyrir sjóðfélaga sem eru yngri en 25 ára eða eldri en 70 ára þann 1. janúar 2006. Sjóðfélagi getur hvenær sem er ákveðið að allt iðgjald hans færist til réttinda eftir aldursháðri réttindatöflu. Ákvörðun sjóðfélaga þar um öðlast gildi frá upphafi þess árs sem tilkynning hans berst sjóðnum og er sú ákvörðun óafturkræf. Réttur til jafnrar ávinnslu skv. ákvæðum þessa kafla telst frá 1. janúar 2006 eða frá þeim tíma er sjóðfélaga fyrst 9 er heimilt að greiða til sjóðsins vegna launatekna af vinnu á starfssviði hans og fellur niður, sé hann ekki nýttur án eðlilegra skýringa að mati sjóðstjórnar. 
9.10.
Stjórn sjóðsins er heimilt að gera samkomulag við aðra lífeyrissjóði innan Landssamtaka lífeyrissjóða sem hafa miðað við jafna réttindaávinnslu á árinu 2003 um gagnkvæma viðurkenningu iðgjaldsgreiðslna til útreiknings viðmiðunariðgjalds skv. framanskráðu. Þá er sjóðnum heimilt að halda samræmda tölvuskrá í samstarfi við aðra lífeyrissjóði um rétt manna til jafnrar ávinnslu og kveða á um það, hvernig sá réttur deilist niður, sé iðgjald greitt til fleiri sjóða. 
9.11.
Áunnin lífeyrisréttindi eins og þau eru skilgreind í 10.-13. gr. og reiknuð samkvæmt 9.2. og 9.3. skulu varðveitt í samræmi við gildandi reglur hverju sinni, þannig að lífeyrisgreiðslur verði samkvæmt uppsöfnuðum réttindum hvers réttindatímabils. Framreikningur skal hverju sinni vera samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar réttur til lífeyris varð virkur. Samtala lífeyrisréttinda er summa áunninna lífeyrisréttinda og framreiknaðra lífeyrisréttinda, ef slík réttindi hafa verið úrskurðuð. Framreiknuð lífeyrisréttindi teljast ekki með áunnum lífeyrisréttindum nema að því marki sem þau hafa fallið til frá úrskurði til framreiknings, sbr. gr. 11.18. og gr. 12.7. Þegar stjórn sjóðsins ákveður aukningu réttinda skulu þau vera greind frá öðrum réttindum. Réttindaaukning er ekki tekin með í framreikningi en hún reiknast að fullu í áunnum réttindum. Komi til skerðingar á áunnum réttindum sjóðfélaga skal fara með réttindaskerðinguna á sama hátt og réttindaaukningu nema að skerðingin kemur til frádráttar áunnum réttindum.
9.12.
Verði iðgjöld ekki reiknuð til réttinda vegna þess að sjóðfélagi hafði náð 70 ára aldri eða ekki náð 16 ára aldri við greiðslu iðgjalda, fer um endurgreiðslu þeirra eftir ákvæðum 15. gr. 
9.13.
Áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga vegna iðgjalda til ársloka 2005 skulu varðveitt skv. þeim réttindareglum sem þá giltu. Þau skulu umreiknuð til krónutölu miðað við áunnin stig á hverju ári og þau grundvallarlaun sem í gildi voru í árslok 2005. Þau breytast síðan mánaðarlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Um áhrif frestunar eða flýtingar á fjárhæð lífeyris skv. þessari grein fer eftir töflu I II í viðauka. 
9.14.

Framlagi hvers árs til jöfnunar örorkubyrði sbr. 18. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, skal ráðstafa í samræmi við ákvæði 19. gr. reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og skapar réttindi í samræmi við neðangreindar reglur.:

1. Framtíðarverðmæti framlagsins skal metið sem sama hlutfall af verðmæti framtíðariðgjalda í tryggingafræðilegri athugun og hlutfall framlagsins er af iðgjöldum ársins, sem koma til framreiknings. Skal hin núvirta fjárhæð teljast til eignar með sama hætti og framtíðariðgjöld.

2. Sjóðurinn metur þá aukningu réttinda sem unnt er að veita sjóðfélögum vegna núvirðingar framlagsins og skulu réttindi hækkuð um það hlutfall sem er á milli fjárhæðar framlagsins og framtíðarskuldbindinga, eins og þær eru fyrir breytinguna. Ekki skal þó hækka réttindi ef eignir að viðbættu framtíðarverðmæti framlagsins eru lægri en skuldbindingar, en að öðru leyti gilda ákvæði 39. gr. laga nr. 129/1997.

3. Nú hefur sjóðurinn ráðstafað fjármunum til aukningar á réttindum og/eða til hækkunar á réttindatöflu og skulu skuldbindingar vegna þessara réttinda metnar til núvirðis á sama hátt og kveðið er á um í IV. kafla reglugerðar nr. 391/1998 og skulu vera í jafnvægi við verðmæti þeirra framlaga sem eignfærð eru skv. 1. lið sbr. 39.gr. laga nr. 129/1997.

10. gr

Ellilífeyrir

10.1.
Hver sjóðfélagi sem orðinn er fullra 60 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum. 
10.2.
Árlegur ellilífeyrir sjóðfélaga sem hefur töku ellilífeyris er jafn samtölu lífeyrisréttinda hans reiknaðra skv. ákvæðum gr. 9.2 og 9.4, skv. töflum í viðauka A, sbr. þó ákvæði 17.3 um gagnkvæma og jafna skiptingu ellilífeyrisréttinda.
10.3.
Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris eftir 67 ára aldur hækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu II fyrir hvern mánuð sem líður frá 67 ára aldri þar til taka lífeyris hefst. Heimilt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs. 
10.4.
Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur þá lækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu II fyrir hvern mánuð sem sjóðfélagann vantar upp á 67 ára aldur þegar taka lífeyris hefst.  
10.5.
Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu réttindi hans endurskoðuð við 67 ára aldur, ef taka ellilífeyris hófst fyrir þann aldur, og síðan aftur við 70 ára aldur, sömuleiðis ef taka ellilífeyris hófst fyrir þann aldur. Ef taka ellilífeyris hófst fyrst 70 ára eða síðar þá þarfnast þau ekki endurskoðunar þar sem iðgjöld eftir 70 ára aldur hafa verið endurgreidd, sbr. grein 15.2. Réttindi eru í kjölfarið reiknuð á ný eigi síðar en við 80 ára aldur. Réttindi vegna iðgjalda eftir 67 ára aldur reiknast eftir töflu II í viðauka A
10.6.
Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris frá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku ellilífeyris í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna sbr. grein 10.9. Ákvæði 10.4. skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 10.3. skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.
10.7.
Ellilífeyrir er greiddur mánaðarlega til æviloka samkvæmt uppsöfnuðum réttindum.
10.8.
Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.
11. gr

Örorkulífeyrir

11.1.
Sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi, sem telja verður að nemi 50% eða meira skv. 11.3. og hefur greitt í sjóðinn í samtals tvö ár, á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi skv. 9. gr. , fram að orkutapi. 
11.2.
Réttur til örorkulífeyris stofnast ekki ef sjóðfélagi hefur ekki orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. 13. gr. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á tekjumissi er tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og frá öðrum lífeyrissjóðum svo og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Því til sönnunar getur stjórn sjóðsins krafist vottorða frá skattstofu, vinnuveitanda o.s.frv. Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið verðbættar til úrskurðardags, sbr. gr. 11.4. um framreikning. Heimilt er að miða við meðaltal tekna síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga, er fengið hefur úrskurðaðan örorkulífeyrir fyrir 1. janúar 2006. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á launavísitölu.
11.3.
Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann svo og áliti trúnaðarlæknis sjóðsins. Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal mat orkutaps aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum tengd. Að því tímabili loknu skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum.
11.4.

Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt gæti heilsufar hans, enda sé þess gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana. Þegar skilyrði 11.1. og þessarar málsgreinar eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunnin lífeyrisrétt skv. 9. gr. að viðbættum lífeyri er svarar til þeirra réttinda er ætla má að, sjóðfélaginn 11 hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuðum samkvæmt ákvæðum 11.9., enda hafi sjóðfélagi:

a. Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. kr. 158.035hvert þessara þriggja ára.

b. Greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.

c. Ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. 

11.5.
Eigi sjóðfélaginn jafnframt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins njóta framreikningsréttinda úr þessum sjóði að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. 
11.6.
Hafi sjóðfélaginn skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldagreiðslur til þessa sjóðs á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings í þessum sjóði ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars sem leitt hefur til orkutapsins.  
11.7.
Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins. 
11.8.
Verði sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi að hann hefur ekki getað uppfyllt tímaskilyrði þau sem nefnd eru í a-lið 11.4. er sjóðstjórn heimilt að stytta þann tíma sem þar er krafist, í tvö undanfarandi almanaksár, enda verið talið fullvíst að orsök örorku verði ekki rakin til tíma fyrir orkutap. 
11.9.
Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri, er hann verður fyrir orkutapi, rétt skv. 11.4. á framreikningi réttinda skal sá framreikningur vera reiknaður út frá meðaltali iðgjalda sjóðfélaga næstu fjögur almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórnin þetta fjögurra ára meðaltal vera sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er henni heimilt að leggja til grundvallar meðaltal iðgjalda átta almanaksára fyrir orkutapið og sleppa því almanaksári sem lakast er sem og því almanaksári sem hagstæðast er. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjöld í skemmri tíma en átta ár fyrir orkutapið skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. 
11.10.
Hafi sjóðfélagi haft skerta almenna starfsorku fyrir þann tíma er hann hóf iðgjaldagreiðslur til sjóðsins og meta má þá starfsorkuskerðingu 50% eða meira skal reikna meðaltal iðgjalda hans öll þau almanaksár sem hann hefur greitt iðgjald til sjóðsins. Skal þá í slíkum tilvikum miða framreikning við þetta meðaltal. 
11.11.
Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið innan við sem svarar kr. 1.053.565 árslaunum fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára sem árlegar iðgjaldagreiðslur hafa svarað til lægri árslauna en kr. 1.053.565 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Sama gildir ef stopular iðgjaldagreiðslur stafa af undanskoti frá greiðsluskyldu til lífeyrissjóða. 
11.12.
Nemi árlegt meðaltal iðgjalda, sem miða skal framreikning við skv. 11.9. og 11.10., meira en kr. 1.053.565skal reikna með meðaltalinu allt að 10 árum, en síðan til 65 ára aldurs, reiknað kr. 1.053.565á ári að viðbættum helmingi iðgjalda sem umfram eru.
11.13.
Ef rekja má sjúkdóma þá sem valda orkutapi sjóðfélaga svo langt aftur í tímann að nemi a.m.k. helmingi almanaksára frá lokum þess árs er sjóðfélagi náði 16 ára aldri til þess tíma er orkutap telst hafa orðið, skulu framreiknuð réttindi aldrei reiknast meiri en þau réttindi sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér í lífeyrissjóðum fram að orkutapi.  
11.14.
Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarks örorkulífeyri og orkutapið er metið, sbr. þó 11.1. Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. 
11.15.
Örorkulífeyrir greiðist einungis ef orkutap og tekjumissir vegna orkutaps vara í þrjá mánuði eða lengri tíma. 
11.16.
Skylt er sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris.  
11.17.
Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra sjóðfélaga sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn ef örorkan vex til muna frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.
11.18.
Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig að auk áunninna réttinda skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku segir til um, réttindi sem við úrskurðun örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs. Aldrei skal þó slík viðbót við áunnin réttindi vera meiri en svo að heildarréttindi hvert almanaksár verði hærri en almennt tíðkast í starfsgrein hlutaðeigandi sjóðfélaga. 
12. gr

Makalífeyrir

12.1.
Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. í 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum og lætur eftir sig maka og á þá maki hans rétt á lífeyri úr sjóðnum.
12.2.
Láti sjóðfélagi eftir sig eitt barn eða fleiri innan 19 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum, skal makalífeyrir greiddur fram að 19 ára aldri yngsta barnsins. Sama gildir ef makinn hefur á framfæri sínu barn sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt. Enn fremur skal makalífeyrir veittur maka sjóðfélaga ef trúnaðarlæknir telur makann vanta 50% eða meira á fulla starfsorku, meðan það ástand varir, þó aldrei lengur en til 67 ára aldurs eftirlifandi maka. 
12.3.
Stofnist réttur til makalífeyris skv. 12.1. skal fullur makalífeyrir greiddur að lágmarki í 48 mánuði og 50% makalífeyrir í 36 mánuði til viðbótar. 
12.4.
Nú andast sjóðfélagi, sem uppfyllir ekki skilyrði 12.1. um iðgjaldagreiðslutíma, og maki hans fær ekki úrskurðaðan makalífeyri samkvæmt framangreindum ákvæðum og skal makalífeyrir þá engu að síður greiddur í 24 mánuði eftir fráfall sjóðfélagans.  
12.5.
Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Á sama hátt er sjóðstjórn heimilt að greiða sambúðarmanni eða sambúðarkonu lífeyri í samræmi við ákvæði 12.4. 
12.6.
Makalífeyrisréttindi eru hverju sinni 50% af elli- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélagans, hvort sem gefur hærri rétt við fráfall. 
12.7.
Auk áunninna réttinda skal telja með þau réttindi sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 11.9. en þó skal aldrei miða meðaltal réttinda við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna réttindi frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, í samræmi við réttindi þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfall hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þess sjóðs. 
12.8.
Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélaga. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan þunguð eða sambúðin varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem sannanlega hefur annast heimili sjóðfélaga um 13 árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar. 
13. gr

Barnalífeyrir

13.1.
Nú andast sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða notið úr honum elli- eða örorkulífeyris við andlátið og eiga þá börn hans eða kjörbörn, sem hann lætur eftir sig og yngri eru en 19 ára, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 19 ára aldurs. 
13.2.
Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. 
13.3.
Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er kr. 26.187 fyrir hvern almanaksmánuð. Upphæð þessi tekur breytingu um hver áramót í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árlegur iðgjaldasstofn, áætlaður í samræmi við 12.7. er a.m.k. kr. 1.316.956. Sé iðgjaldastofninn lægri, lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður hafi stofninn svarað til minna en helmings þessarar fjárhæðar.
13.4.
Sé sjóðfélaga úrskurðaður örorkulífeyrir í samræmi við 11.1. vegna 100% örorku öðlast börn hans, fædd fyrir orkutap, eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir, svo og kjörbörn sem ættleidd hafa verið fyrir orkutap, sama rétt og börn látins sjóðfélaga njóta skv. 13.3. með þeirri undantekningu að fjárhæð fulls barnalífeyris fyrir hvern almanaksmánuð er kr. 19.204. Sé örorka skv. 11. gr. metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.
13.5.
Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
13.6.
Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.
14. gr

Iðgjaldagreiðslur falla niður

14.1.
Nú falla niður launagreiðslur til sjóðfélaga vegna veikinda eða atvinnuleysis, og ávinnur hann sér þá ekki réttindi meðan svo stendur. Tímabil, er iðgjaldagreiðslur hafa sannanlega fallið niður af þessum ástæðum, reiknast ekki með, þegar úrskurða skal hvort skilyrði um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt.  
14.2.
Réttur til elli-, örorku- og makalífeyris fellur ekki niður þótt sjóðfélagi hætti iðgjaldagreiðslu. Rétturinn miðast þá einungis við áunnin réttindi sbr. þó 14.1.  
15. gr

Endurgreiðsla iðgjalda

15.1.
Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða öll iðgjöld launþega, erlendum ríkisborgurum, sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt mati tryggingastærðfræðings. Á ofangreint einnig við um endurgreiðslu lífeyirssparnaðar í séreign. 
15.2.
Af iðgjöldum, sem sjóðnum eru greidd vegna starfsmanna, sem náð hafa 70 ára aldri eða yngri en 16 ára, skal hann endurgreiða sjóðfélaga og launagreiðanda iðgjaldshluta þeirra. 
15.3.
Stjórn sjóðsins er heimilt að takmarka endurgreiðslur skv. 15.1 til allra sjóðfélaga. Þá er stjórn sjóðsins og heimilt að takmarka endurgreiðslur skv. 15.1 ríkisborgara ákveðinna ríkja standi málefnaleg rök til þess. Loks er stjórn heimilt að takmarka endurteknar endurgreiðslur skv. 15.1 til sama sjóðfélaga.
16. gr

Samningar um gagnkvæm réttindi

16.1.
Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir niðurfall réttinda, þegar sjóðfélagi skiptir um starf, og tvítryggingu réttinda, sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Enn fremur er þar heimilt að ákveða, að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en heildarréttindin mundu verða hjá einum og sama sjóði. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn fyrr en þeir hafa hlotið samþykki fjármálaráðuneytisins.  
17. gr

Tilhögun lífeyrisgreiðslna

17.1.
Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á, í fyrsta sinn fyrir næsta mánuð eftir þann mánuð, er lífeyrisréttur myndaðist og síðasta sinn fyrir þann mánuð, er réttur til lífeyris fellur úr gildi. 
17.2.
Sjóðstjórn er heimilt að úrskurða örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri, allt að tvö ár aftur í tímann, reiknað frá byrjun mánaðar er fullnægjandi umsókn berst sjóðnum. Fullnægjandi umsókn um lífeyri telst ekki móttekin fyrr en öll tilskilin fylgigögn hafa borist sjóðnum. Úrskurður skal miðast við réttindareglur eins og þær voru á umræddu tímabili og lífeyri samkvæmt verðlagi hvers tímabils. Vextir reiknast ekki á lífeyrisgreiðslur. 
17.3.

Sjóðfélagi getur með gagnkvæmu samkomulagi við maka sinn ákveðið að iðgjöld eða eftirlaunagreiðslur hans, allt að hálfu, renni til maka hans eða fyrrverandi maka. Samkomulag þetta skal eftir því sem við á ná til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur.  

  1. Ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til sjóðfélaga geta runnið allt að hálfu til maka sjóðfélaga eða fyrrverandi maka. Látist makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra réttinda á undan sjóðfélaga skulu allar greiðslurnar renna til sjóðfélagans.
  2. Áður en taka lífeyris hefst en þó ekki síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar
        dragi ekki úr lífslíkum, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda sjóðfélaga skuli allt að
        hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka sjóðfélaga eða
        fyrrverandi maka og skerðast réttindi sjóðfélaga sem því nemur. Heildarskuldbinding
        sjóðsins má þó ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.
  3. Að iðgjöld sjóðfélaga gangi til þess að mynda allt að hálfu sjálfstæð réttindi fyrir maka sjóðfélaga.
17.4.
Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k. 6.585króna á mánuði, og fyrirsjáanlegt er, að um sameiningu við önnur réttindi verður ekki að ræða, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi samkvæmt reglum í samræmi við tillögur tryggingastærðfræðings.  
18. gr

Tilgreind séreignardeild Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda

18.1.
Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldastofni umfram 12% af iðgjaldastofni í tilgreinda séreignardeild sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjara- eða ráðningarsamningi.  
18.2.
Stjórn sjóðsins er jafnframt stjórn tilgreindu séreignardeildarinnar. 
18.3.
Þeir sem óska eftir aðild að tilgreindri séreignardeild skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur í samræmi við ákvæði gildandi laga 15 og reglugerða. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt um að þeir óski þess að láta af greiðslum til tilgreindrar séreignardeildar og rennur iðgjald þá til samtryggingardeildar.  
18.4.
Sjóðurinn skal gera breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við tilkynnta ákvörðun sjóðfélaga samkvæmt framansögðu eins fljótt og kostur er og eigi síðar en tveimur almanaksmánuðum frá því að tilkynning berst með sannanlegum hætti. Ákvörðun um breytingu á ráðstöfun iðgjalds til framtíðar hefur ekki áhrif á þegar ráðstafað iðgjald. 
18.5.
Iðgjald sem greitt er í tilgreinda séreignardeild skal vera séreign þess rétthafa er greiðir. Framlag í tilgreinda séreignardeild gefur ekki rétt til fyrir fram ákveðins lífeyris heldur skal útborgun úr sjóðnum vera í samræmi við inneign hvers og eins. 
18.6.
Sjóðfélaga (rétthafa) er heimilt að hefja úttekt úr tilgreindri séreignardeild frá 62 ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum greiðslutíma ef innistæðan er undir 1.478.386 kr. 
18.7.
Rétthafi, sem vegna örorku verður að hætta störfum áður en hann nær 62 ára aldri, á rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreignardeild greidda með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á eigi skemmri tíma en sjö árum. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum greiðslutíma ef innistæðan er undir 1.745.821 kr. 
18.8.
Deyi rétthafi áður en innistæða er að fullu greidd fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innistæðan til dánarbús án takmarkana skv. 2. msl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.  
18.9.
Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á eina eða fleiri ávöxtunarleiðir í tilgreindri séreignardeild. Móta skal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við 36. gr. laga nr. 129/1997. Ef boðið er upp á fleiri en eina ávöxtunarleið tilkynnir sjóðfélagi um val milli leiða með tilkynningu til sjóðsins á því formi sem sjóðurinn ákveður. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur. 
18.10.
Rekstur tilgreindrar séreignardeildar er fjárhagslega aðskilinn rekstri sjóðsins og annarra deilda. Sameiginlegum kostnaði skal skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti milli rekstrarþátta deilda sjóðsins. Heimilt er að varsla og reka eignasafn tilgreindrar séreignardeildar ásamt eignasafni annarra deilda sjóðsins. Sérhver deild á þá hlutfallslegt tilkall til eignasafnsins og tekur hlutfallslega þátt í kostnaði. 
18.11.
Rétthöfum er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innistæðu eða réttindum í tilgreindri séreignardeild nema slíkt sé sérstaklega heimilað skv. lögum nr. 129/1997. 
18.12.
Senda skal út yfirlit til rétthafa a.m.k. einu sinni á ári yfir iðgjaldagreiðslur og innistæður þeirra. Hægt er að ákveða að senda út yfirlit oftar í samræmi við samþykktir stjórnar. 
19. gr

Séreignardeild Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda

19.1.
Við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda skal starfrækt séreignardeild til móttöku viðbótariðgjalda. Hlutverk deildarinnar er að tryggja sjóðfélögum og erfingjum þeirra lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykktar deildarinnar.
19.2.
Félagar í séreignardeildinni geta allir þeir orðið sem greiða iðgjald til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og uppfylla skilyrði um lágmarkstryggingarvernd eins og hún er skilgreind að lágmarki í lögum um starfsemi lífeyrissjóða. Jafnframt geta einstaklingar, sem skylt er að greiða í aðra lífeyrissjóði, greitt viðbótargjald í séreignardeildina. 
19.3.
Þeir sem gerast vilja rétthafar skulu afhenda stjórn sjóðsins skriflegan samning um lífeyrissparnað og felst í honum yfirlýsing að þeir vilji hlíta samþykktum séreignardeildarinnar. Samningurinn skal gefinn út í tveimur eintökum, einu heldur rétthafi og hinu heldur deildin.
19.4.
Framlag í séreignardeild gefur ekki rétt til réttinda eða fyrirfram ákveðins lífeyris.
19.5.
Færa skal sérreikning fyrir iðgjöld hvers rétthafa í séreignardeild.  
19.6.
Ávöxtun hvers sérreiknings skal vera tölulega hin sama og hrein ávöxtun deildarinnar, en við útreikning á hreinni ávöxtun skal rekstrarkostnaður deildarinnar umfram rekstrartekjur dreginn frá fjármunatekjum. 
19.7.
Reikna skal vexti þá, sem færast skulu á einstaka sérreikninga í árslok, þannig að vextir hvers sérreiknings séu reiknaðir af eign í ársbyrjun og af inn- og útborgunum á árinu í samræmi við hreina raunávöxtun séreignardeildarinnar.  
20. gr

Séreignardeild

20.1.
Gerist einstaklingur rétthafi í séreignardeildinni, sem verið hefur rétthafi í öðrum lífeyrissjóði, er stjórn deildarinnar heimilt að taka við sem eingreiðslu því fé sem hann kann að fá útborgað úr þeim sjóði sem hans flyst úr. 
20.2.
Séreignardeildin skal senda út yfirlit til rétthafa a.m.k. einu sinni á ári yfir iðgjaldagreiðslur og innistæður þeirra. Hægt er að ákveða að senda út yfirlit oftar í samræmi við samþykktir stjórnar.  
21. gr

Séreignardeild

21.1.
Fé það sem lagt er inn í nafni rétthafa skal vera séreign hans. Auk þess skal færa til eignar hjá hverjum rétthafa þær tekjur af vöxtum og verðbótum sem deildinni áskotnast vegna eignar hans í deildinni. 
21.2.
Nettótekjur deildarinar skiptast milli rétthafa í hlutfalli við eign hvers um sig og færast árlega á sérreikning þeirra.
22. gr

Séreignardeild

22.1.
Hefja má úttekt á innistæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum sbr. 2. - 6. mgr. þessar greinar.
22.2.
Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum. 
22.3.
Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.  
22.4.
Með jöfnum greiðslum er hér átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðsluára, þannig að sjóðfélagi fái á hverju ári þann hluta af innistæðu sinni, að meðtöldum tekjum vegna hennar, sem svarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.  
22.5.
Deyi rétthafi áður en innistæða er að fullu greidd fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innistæðan til dánarbús án takmarkana skv. 2. msl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.  
22.6.
Rétthafa og viðtakanda greiðslu er heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu, sem fylgja skal vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Samningur þessi getur, að hluta til eða öllu leyti, verið til ákveðins tíma eða til æviloka rétthafa. 
23. gr

Séreignardeild

23.1.
Hægt er að segja samningi um lífeyrissparnað upp með tveggja mánaða fyrirvara. Tekur uppsögnin gildi um leið og rétthafi hefur tilkynnt hana til sjóðsins.  
24. gr

Séreignardeild

24.1.
Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar heldur er einungis heimilt að flytja innistæðuna til annars vörsluaðila sem viðurkenndur er að Fjármálaráðuneytinu sem vörsluaðili sbr. 8. gr. laga nr.129/1997. 
24.2.
Við uppsögn rétthafa og flutning inneignar rétthafa til annars vörsluhafa ber að greiða alla inneign hans.  
24.3.
Endurgreiðslufjárhæðin er inneign rétthafa að frádregnum kostnaði sem nemur 1% af inneign sjóðfélaga enda hafi hann greitt til deildarinnar skemur en 36 mánuði frá fyrstu innborgun.
25. gr

Séreignardeild

25.1.
Eignir séreignardeildarinnar skal ávaxta í samræmi við 7. gr. samþykkta sjóðsins og laga nr. 129/1997 og fjárfestingarstefnu deildarinnar.  
26. gr

Séreignardeild

26.1.
Stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda skal jafnframt vera stjórn séreignardeildarinnar og fara með málefni hennar.  
27. gr

Séreignardeild

27.1.
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda annast daglegan rekstur séreignardeildarinnar samkvæmt 1. gr. laga um sjóðinn nr. 155/1998. Rekstur séreignardeildarinnar og ávöxtun iðgjalds skal aðskilinn fjárhagslega annarri starfsemi sjóðsins að öllu leyti. Reikningsár séreignardeildarinnar skal vera almanaksárið.  
28. gr

Séreignardeild

28.1.
Óheimilt er að framselja eða veðsetja inneignir í séreignardeildinni, hvort heldur sem er heild eða hluta þeirra, svo sem einstakar útborganir. 
29. gr

Bann við framsali og veðsetningu lífeyris

29.1.
Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.
30. gr

Málsmeðferð og gerðardómur

30.1.
Við meðferð mála skal sjóðurinn hafa til hliðsjónar grunnreglur stjórnsýsluréttar.
30.2.
Vilji sjóðfélagi eða erfingjar hans ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var um úrskurðinn. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af sjóðnum og oddamanni tilnefndum af Fjármálaeftirlitinu. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga sem lágu fyrir sjóðstjórn er hún tók ákvörðun um málið. Komi fram nýjar kröfur, sönnunargögn og málsástæður við meðferð málsins fyrir gerðardómi, skal málinu vísað aftur til sjóðstjórnar til endurupptöku. Sjóðstjórn er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. 18 Úrskurður gerðardómsins er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en 1/3 málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma. 
31. gr

Eftirlit

31.1.
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með starfsemi lífeyrissjóðsins í samræmi við lög nr. 129/1997 og lög nr. 87/1998. Þar sem vísað er til Fjármálaeftirlitsins í samþykktum þessum er átt við Seðlabanka Íslands, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019. 
32. gr

Breytingar á samþykktum

32.1.
Breytingar á samþykktum Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eru í höndum stjórnar sjóðsins og þurfa þær staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. 
33. gr

Gildistaka

33.1.
Samþykktir þessar koma í stað samþykkta sjóðsins frá 25. mars 2022 og öðlast gildi að fengnu samþykki fjármálaráðuneytisins að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Breytingarnar taka gildi þann 1. september 2024, en hafi ráðherra ekki samþykkt breytingarnar fyrir þann tíma öðlast þær gildi 1. virka dag næsta mánaðar eftir staðfestingu ráðherra. 
33.2.
Breytingar á réttindatöflu í viðauka A taka gildi 1. janúar 2025.  
1. gr.

Bráðabirgðaákvæði

1.1.

Á árunum 2023-2025 skal margfalda niðurstöðu framreiknings réttinda skv. gr. 11.4 með stuðlinum úr eftirfarandi töflu fyrir þá sem úrskurðaðir verða á örorkulífeyri á hverju ári um sig:  

  • Árið 2023 1,06
  • Árið 2024 1,04
  • Árið 2025 1,02

Að árinu 2025 loknu verður framreikningur réttinda framkvæmdur í samræmi við gr. 11.4, sbr. gr. 9.13 og bráðabirgðaákvæði þetta fellur brott.

 

Viðauki A

Réttindatöflur sem gilda frá og með 1. janúar 2025.

 

Viðauki B

Yfirlit um sérstakar breytingar á áunnum lífeyrisréttindum Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda,
samþykktar af stjórn, skv. greinum 6.3. og 6.4. í samþykktunum og 2. mgr. 39. gr. laga nr.
129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

  1. Á árinu 1999 voru áunnin réttindi samtals aukin um 48,5% ásamt breytingum á aldursmörkum ellilífeyris og lækkun réttindastuðla úr 1,8 í 1,65. 
  2. Þann 20. febrúar 2005 var samþykkt á stjórnarfundi 6,45% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2004 og fyrr. Hækkunin er færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2004 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2005, sbr. gr. 9.11. í samþykktunum. Þann 20. febrúar 2006 var samþykkt á stjórnarfundi 5% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2005 og fyrr. Hækkunin er færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2005 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2006, sbr. gr. 9.11. í samþykktunum.
  3. Þann 19. febrúar 2007 var samþykkt á stjórnarfundi 5% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2006 og fyrr. Hækkunin er færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í desember 2006 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með janúarmánuði 2007, sbr. gr. 9.11. í samþykktunum.
  4. Þann 29. mars 2022 var samþykkt á stjórnarfundi 10% hækkun allra áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga í sjóðnum á árinu 2021 og fyrr. Hækkunin er færð sem skuldbinding í réttindayfirlit sjóðsins í september 2022 og öðlast gildi við greiðslu lífeyris frá og með septembermánuði 2022, sbr. gr. 9.13. í samþykktunum.  
  5. Þann 15. mars 2022 var samþykkt á stjórnarfundi að innleiða nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem staðfestar voru af fjármála- og efnahagsráðherra í desember 2021. Breytingin er framkvæmd sbr. gr. 9.11 í samþykktunum og öðlast gildi í samræmi við gildistökuákvæði samþykktanna í gr. 33.

Í samræmi við ofangreint og tillögu tryggingastærðfræðings sjóðsins skal endurreikna áunnin réttindi til ellilífeyris samkvæmt a) og b) hér að neðan.  

 a)  Reikna skal áfallnar skuldbindingar sjóðsins vegna allra lífeyrisþega, nema barnalífeyrisþega og ellilífeyrisþega yngri en 67 ára, ásamt skuldbindingum vegna annarra sem náð hafa 67 ára aldri, annars vegar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og hins vegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir skulu miða við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum eru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar samtryggingardeildar vegna þessa hóps verði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum samtryggingardeildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.

 b)  Reikna skal áfallnar skuldbindingar vegna annarra sjóðfélaga en tilgreindir eru í a-lið þessarar greinar, nema barnalífeyrisþega, annars vegar samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum og hins vegar samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum. Útreikningarnir skulu miða við 31.12.2021. Áunnin réttindi sjóðfélaga samkvæmt hinum nýju dánar- og eftirlifendatöflum eru endurreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar hvers fæðingarárgangs þessa hóps verði sama hlutfall af áföllnum skuldbindingum samtryggingardeildar og þær voru samkvæmt eldri dánar- og eftirlifendatöflum.

Þannig eru áunnin réttindi hvers fæðingarárgangs umreiknuð þannig að áfallnar skuldbindingar samtryggingardeildar vegna hvers fæðingarárgangs haldast óbreyttar 22 samkvæmt nýjum dánar- og eftirlifendatöflum. Af þessu leiðir að áunnin réttindi lækka í samræmi við neðangreinda töflu:

Viðauki C

  1. Lífeyrissjóður leigubílstjóra sameinaðist Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.01.2000. Þann dag flytjast eignir Lífeyrissjóðs leigubílstjóra og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Lífeyrissjóðs leigubílstjóra og tryggingafræðilega stöðu hans þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.1999. Miða skal við stöðu 23 sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau rétt í samræmi við þær. 
  2. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum.  
  3. Lífeyrissjóðurinn Skjöldur sameinast Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.03.2010. Þann dag flytjast eignir Lífeyrissjóðsins Skjaldar og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Lífeyrissjóðsins Skjaldar og tryggingafræðilega stöðu hans þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.2009. Miða skal við stöðu sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau rétt í samræmi við þær. 
  4. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum.
  5. Eftirlaunasjóður starfsmanna Glitnis hf. sameinast Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.09.2010. Þann dag flytjast eignir Eftirlaunasjóðsins og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Eftirlaunasjóðsins og tryggingafræðilega stöðu Eftirlaunasjóðsins þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.2009. Miða skal við stöðu sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Kostnaður sem fallið hefur vegna ársins 2010 verður hins vegar dreginn frá áður en til skiptingar eignar kemur. Réttindi sjóðfélaga Eftirlaunasjóðsins skulu merkt sérstaklega L015EG í réttindabókhaldi Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði 9.2 í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau áunninn rétt til elli- örorku- og makalífeyris þannig að ekki myndast vegna þeirra framreikningsréttur vegna örorku- og makalífeyri. 
  6. Makalífeyrir skal miðast við ákvæði 12.8 þannig að vegna réttinda L015EG greiðist makalífeyrir til æviloka eftirlifandi maka að því gefnu t.a.m. að makinn gangi ekki í sambúð sem á einhvern hátt má líkja við hjúskap. 
  7. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum. 
  8. Lífeyrissjóður Eimskipafélags Íslands II sameinast Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.07.2010. Þann dag flytjast eignir Lífeyrissjóðs Eimskipafélags Íslands II og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Lífeyrissjóðs Eimskipafélags Íslands II og tryggingafræðilega stöðu hans þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.2009. Miða skal við stöðu sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Kostnaður sem fallið hefur vegna ársins 2010 verður hins vegar dreginn frá áður en til skiptingar eignar kemur. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau áunninn rétt til elli- og makalífeyris.  
  9. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum. 
  10. Eftirlaunasjóður Sláturfélags Suðurlands sameinast Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.12.2010. Þann dag flytjast eignir Eftirlaunasjóðs Sláturfélags Suðurlands og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Eftirlaunasjóðs Sláturfélags Suðurlands og tryggingafræðilega stöðu hans þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.2009. Miða skal við stöðu sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau rétt í samræmi við þær án framreikning.  
  11. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum. 
  12. Kjölur lífeyrissjóður sameinast Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda þann 01.06.2012. Þann dag flytjast eignir Kjalar lífeyrissjóðs og skuldbindingar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Réttindi sjóðfélaga eru móttekin miðað við eignir Kjalar lífeyrissjóðs og tryggingafræðilega stöðu hans þannig að þau verði jöfn áfallinni stöðu Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda þann 31.12.2011. Miða skal við stöðu sjóðanna án kostnaðar en að teknu tilliti til endurmats eigna. Réttindi sjóðfélaga miðast við ákvæði í samþykktum Söfnunarsjóðsins og mynda þau rétt í samræmi við þær án framreiknings.
  13. Réttindi sjóðfélaga Kjalar lífeyrissjóða miðuðust áður við réttindi þeirra fimm lífeyrissjóða sem mynduðu Kjöl lífeyrissjóð. 
  14. Réttindi Lsj. Eimskipafélags Íslands skulu meðhöndluð eftirfarandi: Væntanlegur makalífeyrir lækkar úr 51,4% í 50% af áunnum ellilífeyri. Réttindi óvirkra og lífeyrir elliog örorkulífeyrisþega hækka um 1%. Heildarhækkun þessa hóps er 1%. 
  15. Réttindi Lsj. Flugvirkjafélags Íslands skulu meðhöndluð með eftirfarandi hætti: Væntanlegur makalífeyrir lækkar úr 51% í 50% af áunnum ellilífeyri. Þá fellur niður skerðing til maka yngri en 55 ára. Réttindi óvirkra og lífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega hækka um 1%. Heildarhækkun þessa hóps er 1%. 
  16. Réttindi Esj. Olíuverslunar Íslands hf skulu meðhöndluð með eftirfarandi hætti: Væntanlegur makalífeyrir lækkar úr 61% af áunnum ellilífeyri m.v. 70 ára ellilífeyrisaldur í 50% af áunnum ellilífeyri miðað við 67 ár. Væntanlegur örorkulífeyrir er jafn áunnum ellilífeyri en miðaðist áður við áunninn ellilífeyri m.v. 70 ára ellilífeyrisaldur. Réttindi óvirkra og lífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega hækka um 6%. Heildarhækkun þessa hóps er 6%. 
  17. Réttindi Lsj. Mjólkursamsölunnar skulu meðhöndluð með eftirfarandi hætti: Væntanlegur makalífeyrir er tímabundinn. Hann miðaðist áður við 36 mánuði að fullu og 50% í 24 mánuði til viðbótar en verður 4 ár að fullu og 50% í 3 ár til viðbótar. Réttindi óvirkra og lífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega hækka um 0,3%. Heildarhækkun þessa hóps er 1%.
  18. Réttindi Lsj. stm. Áburðarverksmiðju ríkisins skulu meðhöndluð með eftirfarandi hætti: Væntanlegur makalífeyrir óvirkra sjóðfélaga sem fæddir eru árið 1946 og fyrr mun vera ævilangur en annarra óvirkra 4 ár að fullu og 50% í 3 ár til viðbótar. Væntanlegur makalífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega er ævilangur. Í báðum tilfellum að uppfylltum skilyrðum samþykkta SL. Réttindi allra nema makalífeyrisþega lækka um 0,7%. Í heild haldast réttindi óbreytt.  
  19. Sjóðirnir hafa gert með sér samrunasamning sem undirritaður hefur verið af báðum sjóðum. 
Til baka í samþykktir