SL lífeyrissjóður, stofnaður 1974 fyrir þá sem pössuðu ekki í kerfið

SL lífeyrissjóður var stofnaður 1974 þegar allt launafólk landsins var lögskyldað til að greiða í lífeyrissjóði. Hann varð upphaflega til í fjármálaráðuneytinu vegna þess að lífeyrissjóð vantaði fyrir starfshópa sem höfðu ekki sjálfsagða aðild að neinum sjóði og „pössuðu ekki í kerfið“.

Í upphafi hét sjóðurinn Biðreikningur lífeyrisiðgjalda og fyrsti framkvæmastjórinn var Jón Dan Jónsson. Biðreikningurinn varð formlega Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 1981 og fór þá einnig að taka við sjálfstætt starfandi fólki úr ýmsum greinum sem hafa alla tíð síðan verið fjölmennir í sjóðfélagahópnum. Árið 2018 tók sjóðurinn upp starfsheitið SL lífeyrissjóður.

Sjóðurinn sem aldrei hefur skert lífeyrisgreiðslur

SL lífeyrissjóður er opinn sjóður en ólíkt öðrum sjóðum er hann hlutlaus gagnvart bönkum og stéttarfélögum og hefur aldrei þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Sjóðurinn hefur frá upphafi verið varfærinn fjárfestir og tekur alvarlega það hlutverk að fara gætilega með fjármuni sem fjöldi fólks byggir fjárhagslega afkomu sína á.

Besta langtímaávöxtun sameignarsjóðs 2018

Árið 2018 uppskar SL lífeyrissjóður ríkulega þegar hann náði þeim einstaka árangri að hljóta verðlaun fyrir hæstu ávöxtun sameignarsjóðs á 20 ára tímabili - samkvæmt úttekt Verdicta.

Afkoma SL lífeyrissjóðs talar sínu máli og segja má að sjóðurinn fljúgi ekki hátt þegar íslenski fjármálamarkaðurinn er á miklum snúningi en hann stendur að sama skapi betur eða jafnvel best þegar markaðurinn er erfiður. SL lífeyrissjóður er alltaf í úrvalsdeild með afkomuna en ekki alltaf meistarar!

Öflug liðsheild

Í dag starfa að jafnaði um 16 manns hjá sjóðnum og framkvæmdastjóri hans er Sigurbjörn Sigurbjörnsson. Sigurbjörn er viðskiptafræðingur að mennt og hefur starfað hjá sjóðnum frá 1989. Sigurbjörn varð framkvæmdastjóri sjóðsins í október 1997.

SL lífeyrissjóður
Borgartún 29 | 105 Reykjavík
Kt: 450181-0489 | Banki: 101-26-19050
Sími: 510 7400 | Fax: 510 7401
Tölvupóstur: sl [hjá] sl.is

Númer sjóðsins:

Númer samtryggingardeildar (lögbundin iðgjöld 4% og 8%) er: L015
Númer séreignardeildar (valfrjáls viðbótariðgjöld) er: X016
Númer endurhæfingarsjóðs er: R015