Lífeyrissjóðir eru lögbundin samtrygging fyrir allt launafólk á aldrinum 16-70 ára í landinu, en með greiðslu í lífeyrisparnað er lagður grunnur að fjárhagslegu öryggi til efri ára. Þannig hefur lífeyrissjóðurinn þinn þau hlutverk að greiða þér ellilífeyri við starfslok, að greiða þér lífeyri ef þú verður fyrir tekjumissi vegna slyss eða veikinda og greiða maka og börnum þínum lífeyri ef þú fellur frá.
Lögbundið lágsmarksiðgjald til lífeyrissjóðs er 12% af heildarlaunum, en launþegar greiða 4% og mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð á að vera um 11,5%. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru skyldugir til að greiða 12% af launum sínum þar sem þeir eru hvort tveggja í senn, vinnuveitandi og launþegi.
Hægt er að greiða auka lífeyrissparnað inn á séreign sem er þín persónulega eign og er ætlað að bæta kjör sjóðfélaga við starfslok. Greiðsla inn á séreign er 2-4% af launum á móti 2% mótframlagi vinnuveitenda.
Lífeyrissparnaður inn á lán
Sjóðfélögum SL sem greiða í séreignarsjóð gefst kostur að ráðstafa séreignargreiðslum sínum skattfrjálst beint inn á lán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Þá geta þeir sem eru að byggja eða að kaupa sína fyrstu íbúð nýtt þegar greidd iðgjöld í séreignarsjóð til kaupanna, sem og greiða mánaðarleg iðgjöld inn á lán sem tryggð eru með veði í húsnæðinu.
Í hvaða lífeyrissjóði er ég?
Þú sérð á launaseðlinum þínum í hvaða lífeyrissjóð þú greiðir. Ef þú starfar samkvæmt kjarasamningi verður þú að greiða til þess lífeyrissjóðs sem þar er vísað til. Ef starfskjör þín eru ekki bundin sérstökum kjarasamningi, t.d. vegna þess að þú ert sjálfstætt starfandi, geturðu valið þér lífeyrissjóð eftir því sem reglur lífeyrissjóða leyfa.
SL lífeyrissjóður er opinn lífeyrissjóður, sem þýðir að hann starfar óháð stéttarfélögum eða bönkum og hentar því vel þeim aðilum sem geta valið sér lífeyrissjóð.
Greiðslustofa lífeyrissjóða
- Hver greiðir mér lífeyrissparnað?
Lífeyrisgreiðslur fyrir SL lífeyrissjóð koma frá Greiðslustofu lífeyrissjóða, en auk þess að greiða út lífeyri til sjóðfélaga hefur hún milligöngu um útsendingu lífeyristilkynninga, greiðslu staðgreiðsluskatts af lífeyrisgreiðslum til innheimtumanns hin opinbera, annast umsýslu persónuafsláttar lífeyrisþegar og úrskurðar um lífeyri fyrir lífeyrissjóði.