Hvað er lífeyrisgáttin og hvernig notar þú hana?
Við höfum mörg komið við á nokkrum vinnustöðum í gegnum tíðina, hvort sem er í vinnu með skóla, á sumrin eða áfram lífið. Það er líka alveg líklegt að við munum ekki eftir öllum þeim lífeyrissjóðum við höfum greitt til í gegnum tíðina. Lífeyrisgáttin (lifeyrismal.is) er vefgátt sem rekin er af Landsamtökum lífeyrissjóða. Hún veitir heildstæða yfirsýn yfir lífeyrisréttindi þín, það er að segja allar upplýsingar um öll lífeyrisréttindi sem þú hefur áunnið þér í gegnum tíðina, óháð því hjá hvaða lífeyrissjóði þau myndast. Lífeyrisgáttin býður upp á einfalda og aðgengilega leið til að sjá lífeyrisréttindi þín á einum stað.
Hvar finn ég Lífeyrisgáttina?
Til að finna Lífeyrisgáttina geturðu farið inn á vefsíðu þíns lífeyrissjóðs, smellt á „Mínar síður“ þar sem þú finnur upplýsingar um þín réttindi í lífeyrissjóðnum þínum. Síðan geturðu haldið þaðan áfram inn í Lífeyrisgáttina til að sjá í hvaða lífeyrissjóði þú hefur greitt áður.
Hvað sé ég í Lífeyrisgáttinni?
Inni í Lífeyrisgáttinni sérðu upplýsingar um lífeyrisréttindin þín hjá öllum lífeyrissjóðum sem þú hefur greitt í, bæði réttindi sem þú hefur áunnið þér í samtryggingarsjóðum, sem eru tryggingarhluti lífeyriskerfisins sem og í séreign. Þú getur einnig séð yfirlit yfir eldri innborganir og stöðu lífeyrisréttinda og getur séð hvernig réttindin hafa þróast yfir tíma.
Hvernig kemst ég inn í Lífeyrisgáttina?
Innskráning í Lífeyrisgáttina er einföld og fer m.a. fram í gegnum „Mínar síður“ á vefsíðunni. Þú notar rafræn skilríki til að skrá þig inn, sem tryggir öruggan aðgang að þínum persónulegu lífeyrisupplýsingum.
Lífeyrisgáttin er mikilvægur og upplýsandi vettvangur til að fylgjast með þínum réttindum, til að tryggja að réttindi þín séu rétt skráð en einnig fyrir þig að átta þig á lífeyriskjörum þínum til framtíðar litið.
SL lífeyrissjóður er opinn lífeyrissjóður og ekki háður neinum bönkum eða stéttarfélögum. SL hefur alla tíð verið varfærinn langtímafjárfestir sem hefur það að markmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á, en sjóðurinn hefur aldrei þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Litið yfir tuttugu ára tímabil hefur sjóðurinn verið með eina bestu langtímaávöxtunina á meðal íslenskra lífeyrissjóða.