20. febrúar 2023

SL hækkar lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga um 5,6%

Markmið okkar hjá SL hefur ávallt verið að vinna að því að tryggja að langtímaávöxtun á sparifé sjóðfélaga sé og verði ein sú besta á meðal íslenskra lífeyrissjóða. Við getum stolt sagt að við höfum náð tilætluðum árangri í þeim efnum. SL endurreiknar mánaðarlega lífeyrisgreiðslur í samræmi við vísitölu neysluverðs. Þannig hafa lífeyrisgreiðslur hækkað um nærri 10% á síðasta ári en að auki hækkuðum við greiðslur til elli-, örorku- og makalífeyrisþega um 5,6% frá 1. janúar.  Er það vegna traustrar stöðu sjóðsins og góðrar ávöxtunar til langs tíma.

Um síðustu áramót kynntum við einnig til sögunnar nokkrar breytingar er varða réttindi sjóðfélaga sem auka einnig sveigjanleika þeirra. Ný spá um lífslíkur sem Fjármálaráðuneytið gaf út á síðasta ári, gerir ráð fyrir hækkandi aldri landsmanna og því munu fleiri einstaklingar njóta eftirlauna á efri árum. Þannig hafa réttindi allra sjóðfélga sjóðsins verið aðlöguð að auknum lífslíkum yngri aldurshópa og sífellt lengri tíma sem hver kynslóð er á lífeyri. Þá er nú mögulegt að hefja töku eftirlauna frá 60 ára aldri í stað 65 ára. Það býður sjóðfélögum upp á að geta stýrt betur hvernig þau vilja haga sínum efri árum þegar kemur að jafnvægi á milli atvinnuþátttöku og töku eftirlaunalífeyris. 
 
Sigurbjörn Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri SL lífeyrissjóðs:

“Öflug staða sjóðsins undanfarin ár hefur gert okkur vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem árið 2022 færði okkur. Við höfum náð að verja lífeyrissparnað sjóðfélaga þrátt fyrir neikvæða raunávöxtun á mörkuðum og erum því mjög stolt af því að geta hækkað lífeyrisgreiðslur um 5,6% umfram verðlag.”
 

Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
21.nóv. 2023

Frumvarpið ávísun á langvarandi málaferli

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um slit ÍL-sjóðs felur í sér viðurkenningu á rétti skuldabréfaeigenda til vaxta...
Lesa meira
Sjá allar fréttir