Skuld- og skilmálabreytingar fyrirtækjabréfa

Skuld- og skilmálabreytingar fyrirtækjabréfa

  1. Inngangur
    Reglur þessar eru settar í samræmi við 3. gr. laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og skulu gilda til jafnlengdar því ákvæði laganna.

    Reglurnar eiga við lögmætar kröfur SL lífeyrissjóðs (sjóðurinn), þ.e. kröfur sem njóta réttarverndar að íslenskum eða alþjóðlega viðurkenndum lögum. Telji skuldari kröfu sjóðsins ólögmæta eða óréttmæta skal hann gera sjóðnum, með vel rökstuddum hætti, grein fyrir ástæðum þess að hann telji kröfu sjóðsins óréttmæta. Sé niðurstaða sjóðsins að krafan sé óréttmæt eða ólögmæt skal fella kröfuna niður að því leyti sem við á.

    Reglur þessar eru til viðmiðunar við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Markmið þeirra er að tryggja sem best samræmi í vinnubrögðum við úrvinnslu mála.

    Lífeyrissjóðir eiga í mörgum tilvikum kröfur á sömu fyrirtæki og fjármálafyrirtæki eiga kröfu á. Reglur þessar taka því mið af þeim reglum sem fjármálafyrirtæki hafa sett sér fyrir milligöngu Samtaka fjármálafyrirtækja. Þannig taka reglurnar mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 107/2009 um samræmi, jafnræði og gagnsæi við meðferð einstakra mála, auk þess að taka tillit til hinnar almennu kröfu um heilbrigða og góða viðskiptahætti.

    Markmið vinnu við endurskipulagningu fyrirtækja er að hámarka endurheimtur sjóðsins að teknu tilliti til þeirra skilyrða og sjónarmiða sem lýst er í reglum þessum og lögum nr. 107/2009. Ennfremur gilda í þessu tilliti eftir því sem við eiga ákvæði annarra laga, svo sem laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, samkeppnislaga, nr. 44/2005, laga nr. 77/2003, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

  2. Skilyrði fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu

    Með fjárhagslegri endurskipulagningu er hér átt við það þegar endurskipulagning kann að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana frá gerðum samningum.

    Að neðan eru talin þau skilyrði sem fyrirtæki þarf almennt að uppfylla til að eiga kost á fjárhagslegri endurskipulagningu.:

    2.1. Endurheimtur krafna sjóðsins verði betri eftir endurskipulagningu á skuldum fyrirtækis en við upplausn þess að mati sjóðsins.

    2.2. Fyrirtæki geti sýnt fram á að sjóðstreymi standi undir greiðslu á skuldum eftir endurskipulagningu. Við mat á fjárhæð skulda eftir endurskipulagningu verði höfð hliðsjón af væntri greiðslugetu, heildarvirði og eignavirði fyrirtækis.

    2.3. Traust og trúnaður þarf að ríkja í viðskiptasambandi fyrirtækis og sjóðsins. Í því sambandi er m.a. horft á viðskiptasögu fyrirtækisins, eigenda þess og stjórnenda.

    2.4. Fyrirtækið sýni vilja til samvinnu og veiti sjóðnum allar nauðsynlegar upplýsingar til að meta grundvöll fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu.

    2.5. Fyrirtæki veiti sjóðnum heimild til að vinna fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis í samvinnu við aðra kröfuhafa, þegar við á.

    2.6. Fyrirtæki veiti sjóðnum heimild til að framkvæma áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu ef ástæða þykir til.

    2.7. Ekki þyki líklegt að aðrir kröfuhafar muni krefjast gjaldþrotaskipta á fyrirtækinu.

  3. Mat á fyrirtæki

    Þegar kannað er hvort skilyrði fjárhagslegrar endurskipulagningar séu uppfyllt leggur sjóðurinn mat á ýmsa þætti sem snúa að rekstri, stjórnun, efnahag og rekstrarumhverf fyrirtækisins m.a.:

    3.1. Eignir og skuldir þar sem m.a. er lagt mat á:

    3.1.1. Verðmæti trygginga og helstu eigna fyrirtækis.

    3.1.2. Möguleika á hagræðingu, t.d. hvort selja megi óarðbærar eignir.

    3.1.3. Skuldir og skuldbindingar fyrirtækisins, þ.m.t. ábyrgðir.

    3.1.4. Tryggingastöðu sjóðsins, þar sem m.a. er lagt mat á líftíma eigna og veða sem standa að baki skuldum

    3.2. Greiðslugetu þar sem m.a. er lagt mat á:

    3.2.1. Rekstraráætlun, sjóðsstreymi og lykilforsendur.

    3.2.2. Áætlun um hagræðingu, t.d. hvort draga megi úr rekstrar kostnaði.

    3.3. Verðmæti fyrirtækis með hliðsjón af áætluðu sjóðstreymi.

    3.4. Orðsporsáhættu fyrirtækis og sjóðsins af fjárhagslegri endurskipulagningu.

    3.5. Tengdir aðilar eru metnir heildstætt eftir því sem við á.

  4. Mat á áframhaldandi þátttöku eigenda og stjórnenda fyrirtækis

    Við mat sjóðsins á áframhaldandi þátttöku eigenda og stjórnenda í rekstri fyrirtækja eftir fjárhagslega endurskipulagningu er einkum horft til viðskiptasögu þeirra, samstarfsvilja við hina fjárhagslegu endurskipulagningu og þýðingu þeirra fyrir framtíð fyrirtækja. Við mat á þessum þáttum er m.a. horft til eftirfarandi atriða:

    4.1. Við mat á viðskiptasögu eigenda og stjórnenda er m.a. horft til eftirfarandi þátta:

    4.1.1. Hefur almennt verið staðið við samninga viðskiptavinar og sjóðsins?

    4.1.2. Hefur upplýsingagjöf almennt verið góð?

    4.1.3. Hafa arðgreiðslur og launagreiðslur verið í takt við rekstrarforsendur?

    4.1.4. Er rekstrarsaga fyrirtækisins góð þrátt fyrir fjárhagslega erfiðleika?

    4.1.5. Hefur samningum og lögum verið fylgt við meðferð og sölu eigna fyrirtækis?

    4.2. Við mat á samstarfsvilja við framkvæmd endurskipulagningar er m.a. horft til eftirfarandi þátta:

    4.2.1. Hafa allar nauðsynlegar upplýsingar verið veittar?

    4.2.2. Hefur fyrirtækið stuðlað að samstarfi kröfuhafa þar sem við á?

    4.2.3. Ríkir almennt traust milli aðila?

    4.3. Við mat á því hvort þátttaka eigenda og stjórnenda bætir endurheimtur skulda er m.a. horft til eftirfarandi þátta:

    4.3.1. Hafa þeir færni og / eða þekkingu sem er verðmæt viðkomandi rekstri?

    4.3.2. Hafa þeir viðskiptasambönd sem eru rekstrinum dýrmæt?

    4.3.3. Eru þeir handhafar leyfa sem eru rekstrinum verðmæt?

    4.3.4. Er staða þeirra samkvæmt samningum slík að endurheimtur sjóðsins verði lakari án þeirra?

  5. Skilmálar samninga við endurskipulagningu

    Í tengslum við samninga um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækis kann sjóðurinn að gera kröfur um frekari skilmála og kvaðir á fyrirtæki eftir því sem við á. Þessir skilmálar geta t.a.m. verið:

    5.1. Krafa um eiginfjárframlag eigenda til rekstursins og / eða til niðurgreiðslu á skuldum fyrirtækis við sjóðinn.

    5.2. Arðgreiðslubann og takmarkanir á úttektum eigenda.

    5.3. Takmarkanir á launagreiðslum og öðrum hlunnindum eigenda og stjórnenda.

    5.4. Takmarkanir á breytingu á stjórn fyrirtækis eða tilgangi þess án samþykkis sjóðsins.

    5.5. Krafa um auknar tryggingar fyrir skuldum fyrirtækisins, m.a. í eignum félagsins og sjóðstreymi og/eða eignarhlut eigenda í fyrirtæki.

    5.6. Heimild til að skipa fyrirtæki tilsjónarman, ráðgjafa og/eða óháðan stjórnarmann.

    5.7. Krafa um reglulega upplýsingagjöf um rekstur, efnahag og sjóðstreymi.

    5.8. Krafa um að skuldum sé breytt í eigið fé og/eða fjármálagerningar gefnir út með breytirétti í hlutafé.

  6. Aðferðarfræði og sjónarmið

    Aðferðafræði við endurskipulagningu skulda mun öðru fremur taka mið af viðskiptalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum ásamt kröfum um gegnsæi.

    6.1. Taka skal tillit til samkeppnislegra áhrifa endurskipulagningar fyrirtækis samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008 frá 12. nóvember 2008. Í því sambandi skal m.a. leitast við að velja þá leið við endurskipulagningu sem eflir samkeppni eða raskar henni minnst. Ekki skal vikið til hliðar augljósum hagsmunum sjóðsins af því að hámarka verðmæti, tryggja hagsmuni sjóðsins og vinna hratt að úrlausn mála.

    6.2. Meðan á vinnu við lausn á skuldavanda fyrirtækja stendur kann að reynast nauðsynlegt að halda áfram innheimtu skulda til að gæta hagsmuna sjóðsins. Með innheimtu er átt við innheimtu samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008 eða löginnheimtu samkvæmt réttarfarslögum.

    6.3. Ekki er gert ráð fyrir því að niðurfelling skulda breyti neikvæðri eiginfjárstöðu fyrirtækja í jákvæða. Á hinn bóginn er henni ætlað að styrkja efnahag fyrirtækja til lengri tíma.

    6.4. Sjóðurinn leitast við að hafa verklag eins gegnsætt og völ er á. Í því felst að allar ákvarðanir um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skulu fara í gegnum nákvæmlega skilgreint ferli hjá kröfueigendum og skal bókað sérstaklega um allar ákvarðanir og þær varðveittar hjá kröfueiganda. Fara verður eftir sambærilegu ferli og gildir um lánveitingar og tryggja þarf hlutlægni við ákvarðanatöku.

    6.5. Þar sem fyrirsjáanlegt er að greiðslugeta sé engin eða mjög takmörkuð verður þannig ekki séð að önnur úrræði séu tæk en að leita fullnustu í eignum skuldara.

  7. Helstu gögn við mat og úrvinnslu mála

    Áður en fjárhagsleg endurskipulagning á sér stað getur sjóðurinn gert kröfu um eftirfarandi upplýsingar og gögn eftir því sem við á:

    7.1. Staðfestar og/eða endurskoðaðar upplýsingar um rekstur, efnahag og sjóðstreymi fyrirtækis síðustu ára með skýringum.

    7.2. Fjárhagsáætlun fyrir næstu 3-5 árin sem sýnir áætlaðan rekstrar- og efnahagsreikning og sjóðstreymi, ásamt sögulegum rekstrartölum. Einnig yfirlit yfir helstu áhrifaþætti og forsendur áætlana.

    7.3. Sundurliðað yfirlit yfir skuldbindingar fyrirtækisins, þ.m.t. skuldir við sjóðinn, aðra lánadrottna og opinbera aðila, eignarleigusamninga og ábyrgðir fyrirtækis og eiganda þess.

    7.4. Fjárfestingaáætlun þar sem skilgreindar eru þær fjárfestingar sem eru fyrirtækinu nauðsynlegar til að viðhalda áframhaldandi starfsemi og ná áætluðum árangri.

    7.5. Upplýsingar um viðskiptasamninga, viðskiptasambönd og tekjuskiptingu, einkum sérþekkingu eða einkaleyfi.

    7.6. Skipurit fyrirtækisins og upplýsingar um stjórnendur.

    7.7. Upplýsingar um tengd félög/fyrirtæki og viðskipti við tengda aðila, þar meðtaldar ábyrgðir.

    7.8. Yfirlit yfir helstu rekstrartengdar eignir.

    7.9. Aldursgreindan lista yfir viðskiptakröfur og viðskiptaskuldir, ásamt mati á endurheimtum og stöðu innheimtu.

    7.10. Aldursgreindar birgðir og endurmetið virði þeirra.

    7.11. Veðbókarvottorð eigna, fastafjármuna og lausafjármuna og uppreiknuð staða allra veðskulda.

    7.12. Upplýsingar um breytingar á framsetningu reikningsskila.

    7.13. Ákvarðanir um viðskiptasamninga og tryggingar sem hafa verið teknar á síðustu tveimur árum.

    7.14. Upplýsingar um hvort fyrirtækið standi í málaferlum.

    7.15. Aðrar upplýsingar sem að mati sjóðsins eru taldar skipta máli við mat á grundvelli fjárhagslegrar endurskipulagningar.

  8. Söluferli eigna

    Sjóðurinn getur þegar sérstaklega stendur á þurft að taka yfir eignarhlut í fyrirtæki að hluta eða öllu leyti í þeim tilgangi að tryggja fullnustu eigna sjóðsins eða sem þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækis. Ávallt er þó stefnt að fjárhagslegri endurskipulagningu án yfirtöku. Komi til yfirtöku hefur sjóðsinshliðsjón af eftirfarandi sjónarmiðum við sölu yfirtekinna eigna, eftir því sem við á:

    8.1. Stefnt er að því að selja eignarhluti í fyrirtækjum eins fljótt og hagkvæmt er.

    8.2. Stefnt skal að opnu og gagnsæju söluferli og jafnræðis meðal fjárfesta.

    8.3. Í einhverjum tilvikum kunna hagsmunir fyrirtækis og sjóðsins að kalla á lokað útboð eða annars konar fyrirkomulag á sölu eigna, t.d. vegna ákvæða hluthafasamkomulags eða samþykkta um forkaupsrétt, sjónarmiða annarra eigenda, kröfuhafa eða eigenda viðskiptaleyfa, þegar áætlað söluverðmæti réttlætir ekki kostnað við opið útboð eða vegna annarra augljósra hagsmuna fyrirtækis eða sjóðsins.

    8.4. Ákvörðun um sölu á eignarhlut sjóðsins og aðferð við sölu skal rökstudd og skráð eins og aðrar ráðstafanir tengdar fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja.

    8.5. Við sölu eigna verður höfð hliðsjón af áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008 frá 12. nóvember 2008 og umræðuskjali Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2009 um banka og endurskipulagningu fyrirtækja, sbr. lið 6.1 í þessum reglum.

    Samþykkt á stjórnarfundi sjóðsins 20. september 2010.